Söngur hefur gríðarlega góð áhrif á sálina

Aron Ottó vann til fyrstu verðlauna í Vox Domini

Aron Ottó Jóhannsson nemandi við Menntaskólann á Ísafirði sigraði á sunnudag í miðstigsflokki í söngkeppninni Vox Domini líkt og greint var frá hér á vefnum í gær. Aron Ottó segist í sjöunda himni með sigurinn, hann segir þó byrjun síðustu umferðar í keppninni hafa verið eilítið taugatrekkjandi: „Ég var með fyrsta atriðið og steig fyrstur á svið í síðustu umferð keppninnar. það var frekar stressandi að vera fyrstur á svið. en ég hugsaði um það frekar eins og að rífa af sér plástur, betra að ljúka því sem fyrst af.“

Aron Ottó hefur náð gríðarlega góðum árangri í söngnum og þykir hann hafa einstaklega fallega bassarödd, en einungis er um eitt og hálft ár frá því er hann hóf söngnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Vox Domini, var nú haldin í fyrsta sinn en það er FÍS, Félag íslenskra söngkennara sem fyrir henni stendur og er ætlunin að keppnin verði haldin árlega. Aron Ottó ber keppninni vel söguna: „Þátttakan í keppninni var skemmtileg upplifun. Þetta var eitthvað algjörlega nýtt fyrir mig, og ólíkt öllu því sem ég hef gert áður. Baksviðs var að finna allskonar frábæra söngvara frá öllum landshornum; bassa,  tenóra og sópran söngkonur, söngvara af öllu stærðum og gerðum.“

Aðspurður um hvað söngurinn geri fyrir hann stendur ekki á svari hjá bassasöngvaranum unga: „Ég myndi segja að söngur hafi gríðarlega góð áhrif á sálina, söngur er frelsandi.“

annska@bb.is

DEILA