Slysaslepping kærð til lögreglu

Regnbogasilungur.

Landssamband veiðifélag hefur kært sleppingu regnbogasilunga úr fiskeldi á Vestfjörðum til lögreglu. Í tilkynningu frá sambandinu segir að regnbogasilungur hafi veiðst í ám á Vestfjörðum en einnig í Vatnsdalsá, Haffjarðará, Hítará á Mýrum og fleiri ám. „Ljóst er að mikið magn regnbogasilungs hefur sloppið úr eldi sé horft á dreifingarsvæði regnbogans,“ segir i tilkynningunni.

Landssambandið vísar til þess að samkvæmt lögum ber að tilkynna slysasleppingar án tafar til Fiskistofu en engin slík tilkynning hefur borist og telur sambandið óhugsandi að fiskur sleppi úr sjókvíum í þeim mæli sem vísbendingar eru um án vitundar rekstrarleyfishafa.

„Landssambandið telur brýnt að upplýsa hvort hér sé um saknæman atburð að ræða sem kann að varða refsiábyrgð forsvarsmanna viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækja. Landssambandið telur að þessi atburður sé alvarleg birtingarmynd á slælegu eftirliti með sjókvíaeldi á Ísland og lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum,“ segir í tilkynningunni.

smari@bb.is

DEILA