Sjúkraflug eykst og heilsugæslan í sárum

Á síðasta ári voru hátt í 700 manns fluttir með sjúkraflugi hér á landi, en árið 2006 var fjöldi þeirra sem fluttur var 464. Björn Gunnarsson‚ barna- svæfinga- og gjörgæslulæknir, segir brýnt að komast því hvers vegna sjúkraflutningum með flugi hefur fjölgað svo mikið og gerir hann það að umtalsefni sínu í ritstjórnargrein í Læknablaðinu og spyr hann hvort minni sjúkrahús úti á landi mæti niðurskurði með því að senda sjúklinga til Reykjavíkur.

Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, vísar því á bug í tilfelli HSVEST og segir í raun sömu starfsemi á sjúkrahúsinu á Ísafirði og hefur verið, þrátt fyrir fjárhagserfiðleika og því ekki um bein áhrif af þeim að ræða. Hallgrímur segir fjárhagserfiðleikarnir sem HVEST glímir við hafa bitnað mest á Heilsugæslunni og þar starfi of fáir læknar. Viðvarandi læknaskortur hafi verst bitnað á útstöðvunum heilbrigðisstofnunarinnar; Bolungarvík, Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri,Tálknafirði og Bíldudal.

Við þetta rímar vel grein Þórarins Ingólfssonar‚ formanns Félags íslenskra heimilislækna sem einnig birtist í Læknablaðinu þar sem segir meðal annars: „Heilsugæsla á landsbyggðinni stendur veikt og er læknisþjónustan víða rekin með aðstoð afleysara í verktöku. Slíkt er ekki boðlegt. Fórnarkostnaðurinn við að skila hallalausum rekstri hefur verið heilsugæsla í sárum sem ekki nær að sinna hlutverki sínu og starfsánægja í lágmarki. Til samanburðar má nefna að í fjármögnunarlíkani því í Svíþjóð sem er fyrirmynd fjármögnunarlíkans þess sem á að innleiða á næsta ári í heilsugæslu er fjármögnunin um 40% meiri. Þó er skólaheilsugæsla og mæðravernd ekki inni í sænska líkaninu. Þá væri munurinn enn meiri.“

Á öðrum stað í greininni vísar hann til undirmönnunar á heilsugæslunni hér á landi og bendir á að í sérnámi hérlendis hafi verið 30-40 námslæknar undanfarið og 4-9 útskrifast að jafnaði á ári. En ef við miðuðum okkur við Svía ættu hér að vera 80 sérnámslæknar og þrír kennslustjórar fjármagnaðir af velferðarráðuneyti og segir hann að verulega þurfi að bæta í ef vel eigi að vera.

annska@bb.is

DEILA