Segir eftirlitið ekki slælegt

Landssamband fiskeldisstöðva (LF) leggur áherslu á að fyrirtæki í fiskeldi fari varlega í sinni starfsemi og lágmarki umhverfisáhrif, að sögn Einars K. Guðfinnssonar, formanns LF. Landssamband veiðifélaga hefur kært til lögreglu slysasleppingu á regnbogasilungi í fyrra. Í haust veiddist regnbogasilungur í ám víða á Vestfjörðum og fregnir bárust af eldisfiski í ám í öðrum landshlutum. Í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga segir að slysasleppingin í fyrra sé annaðhvort saknæmur atburður eða „alvarleg birtingarmynd á slælegu eftirliti með sjókvíaeldi á Ísland og lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum.“

Einar segir alls ekki rétt að eftirlit með fiskeldi sé slælegt. „Lögin eru mjög skýr og Matvælastofnun hefur eftirlitshlutverkið og hefur eins og lög gera ráð fyrir verið með þetta mál til rannsóknar og ég treysti Matvælastofnun til að fara með þetta vald,“ segir Einar. Ekki er ljóst hvenær niðurstaða fæst í rannsókn Matvælastofnunar á slysasleppingunni í fyrra.

Hann bendir á að Landssamband fiskeldisstöðva hafi sent frá sér yfirlýsingu eftir að regnbogasilungurinn veiddist síðasta haust þar sem fram kom að fiskeldisstöðvarnir leggi kapp á að komast að því hvaðan regnbogasilungurinn kemur. Regnbogasilungur er alinn í fjórum fjörðum á Vestfjörðum, í Önundarfirði, í Dýrafirði, í Tálknafiðri og í Ísafjarðardjúpi. Eldi á regnbogasilungi er á undanhaldi og eldisfyrirtækin einblína í meiri mæli á laxeldi.

smari@bb.is

DEILA