Konungur fuglanna í Djúpinu

Haförn. Ljósmynd: Hilmar Pálsson

Hann var tignarlegur haförninn, konungur íslenskra fugla líkt og hann er gjarnan nefndur, er hann leit yfir landið sitt í Ísafjarðardjúpi í gær. Hilmar Pálsson, tryggingasali og áhugaljósmyndari með meiru, var á leið frá Reykjavík til Ísafjarðar er hann kom auga á arnarpar í Ísafirði.

„Við sáum örn fljúga yfir fjörðinn við Arngerðareyri, og Gugga (kona Hilmars) segir: „Ætli hann sé að koma úr Grímseynni á Steingrímsfirði og að fara í mat í Svansvík?“ En við sáum örn í Steingrímsfirði í haust. Svo ökum við fyrir fjörðinn og rétt áður en komið er að flugvellinum á Reykjanesinu sitja tveir ernir stutt hvor frá öðrum svona, sennilega par.“ Hilmar var fljótur að grípa til myndavélarinnar, en styggð kom að öðrum fuglinum á meðan að hinn virtist ekki slá vængjunum á móti þessum fyrirsætustörfum og náði Hilmar af honum þessari stórglæsilegu mynd.

„Við stoppum bílinn og ég fer út og læðist í skjóli eins nálægt og ég þorði og stóð upp mjög hægt með myndavélina tilbúna, en þá flýgur strax annar þeirra en hinn sat sem fastast og leyfði myndatöku, en gafst svo upp að lokum og flaug á eftir kellu sinni sennilega.“ Segir Hilmar um þessa óvæntu myndatöku.

Um fuglinn er sagt á Wikipediu: Haförn (fræðiheiti: Haliaeetus albicilla) er mjög stórvaxinn ránfugl af haukaætt. Haförn verpir í norðurhluta Evrópu og Asíu. Haförnum var næstum útrýmt í Evrópu en með friðun og aðgerðum hefur tekist að endurreisa varp sums staðar. Hafernir eru alls staðar sjaldgæfir en ernir eru þó flestir við strendur Noregs. Hafernir eru oftast staðfuglar.

Haförn er um 70-90 sm langur og vænghaf hans er 200 -240 sm. Fuglinn vegur um 5 kg. Karlfuglar eru mun minni en kvenfuglar. Haförninn hefur breiða ferhyrnda vængi og stórt höfuð. Fullorðinn örn er brúnn en höfuð og háls er ljósara, stélið er hvítt og goggur og fætur gulir. Á ungum fuglum er stél og goggur dökkt og stélið verður hvítt með svartri rönd þegar fuglinn eldist. Ernir verða kynþroska 4 til 5 ára gamlir. Ernir parast fyrir lífstíð og þegar annar fuglinn fellur frá þá getur tekið hinn mörg ár að finna nýjan maka. Ernir gera sér stundum hreiður í hrúgu af kvistum í tré eða á klettasyllum.

annska@bb.is

DEILA