Íþróttaandinn

Hrafnhildur Hanna skiptir um treyju við Huldu Dís, systur sína, undir lok leiksins gegn Haukum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Á dögunum mættu Haukar á Selfoss til að etja þar kappi í handknattleik en laut í parket fyrir heimamönnum með 25 mörkum gegn 28. Það væri ekki á frásögur færandi nema fyrir það að rétt fyrir lok leiks rífur Haukastúlkan María Karlsdóttir keppnistreyju Selfossstúlkunnar Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttir sem brá á það ráð að skýla nekt sinni með nýrri treyju þessar tvær mínútur sem eftir lifðu leiks.

Flestum þætti nú mannasiðir að Haukastúlkur bæðu afsökunar á hegðun sinni en það er öðru nær, þær hafa kært Selfossliðið vegna þess að áðurnefnd Hrafnhildur Hanna hafi spilað í tvær mínútur í treyju númer þrjú en ekki fjögur, eins og stendur á leikskýrslu !!

Þetta kemur fram í frétt hjá Sunnlenska fréttablaðinu og þar kemur sömuleiðis fram að kæra Hauka hafi komið Magnúsi Matthíassyni, formanni handknattleiksdeildar Selfoss, í opna skjöldu og á hann bágt með að sjá að treyjuskiptin hafi haft áhrif á gang leiksins.

bryndis@bb.is

 

DEILA