Hvassviðri eða stormur í dag

Suðvestan 15-23 m/s og él verða á Vestfjörðum í dag, en lítið eitt hægari í kvöld. Það lægir smám saman fram á morgundaginn og undir kvöld á morgun verður suðvestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og úrkomulítið. Hiti verður um og undir frostmarki. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er varað við að vegir og gangstéttir kunni að vera hál og fólki bent á að fara varlega. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum á Vestfjörðum.

Á morgun lægir víða og léttir til og kólnar, en sunnan úr hafi nálgast kröpp og dýpkandi lægð. Næstu daga er síðan búist við umhleypingum, hvössum vindum og úrkomu í öllum landshlutum.

annska@bb.is

DEILA