Gera alvarlegar athugasemdir við samning við Hendingu

Vonast til að reiðskemma hleypi krafti í starf Hendingar. Mynd úr safni.

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gera alvarlegar athugasemdir við samningsdrög sem meirihlutinn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur gert við Hestamannafélagið Hendingu um bætur vegna aðstöðumissis sem félagið varð fyrir við gerð Bolungarvíkurganga. Í bókun Jónasar Þórs Birgissonar (D) og Marzellíusar Sveinbjörnsssonar (B) á fundi bæjarráðs í morgun er staldrað við eitt atriði sem flokkarnir gera athugasemd við, en það hvernig rekstri fyrirhugaðrar reiðskemmu verði háttað í framtíðinni. „Það hlýtur að teljast lágmarkskrafa að upplýsingar um framtíðarskuldbindingu sveitarfélagsins séu skýrar áður en lagt er út í miklar fjárfestingar sem íbúar bæjarins þurfa að taka endanlega ábyrgð á,“ segir í bókuninni. Minnihlutinn hvetur meirihluta Í-listans til að fresta gerð samkomulags þar til niðurstaða um rekstur reiðskemmunnar liggur fyrir.

Í gagnbókun Í-listans segir að samkomulag við Hendingu hafi dregist allt of lengi og vonir standi nú til að hestamenn geti byggt upp góða aðstöðu í Engidal og bygging reiðskemmu hleypi vonandi endurnýjuðum krafti í starfsemi Hendingar.  „Sjálfsagt er að gefa sér tíma til að gera þær breytingar á samningsdrögunum sem nauðsynlegar teljast og verða þau lögð fram á fundi bæjarstjórnar þann 2. febrúar,“ segir í bókun Örnu Láru Jónsdóttur, Kristjáns Andra Guðjónssonar og Gísla Halldórs Halldórssonar.

smari@bb.is

DEILA