Fyrir öllu að ná sátt við hestamenn

Frá reiðnámskeiði í reiðskemmunni á Söndum í Dýrafirði, einu innanhúsaðstöðu hestamanna á Vestfjörðum.

 

Það hillir undir lok á nærri 10 ára gamalli deilu Hestamannafélagsin Hendingar og Ísafjarðabæjar vegna aðstöðumissis félagsins við gerð Bolungarvíkurganga. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að samingsdrögin sem liggja fyrir séu ásættanleg af bæjarins hálfu en þau verða lögð fyrir bæjarráð á mánudag. „Við stóðum í stafni í samningaviðræðunum, við teljum þetta mjög vel í lagt en fyrir öllu er að ná sátt um málin og hefja uppbyggingu í hestaíþróttum,“ segir Gísli Halldór.

Marinó Hákonarson, formaður Hendingar, sagði í samtali við bb.is fyrr í vikunni að samningsupphæðin megi reikna á bilinu 50-60 milljónir kr.

Vegagerðin greiðir Ísafjarðarbæ 20 milljónir kr. sem bætur fyrir svæðið sem fór undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga. Á svæðinu höfðu hestamenn gert bæði hringgerði og skeiðvelli.

Samkvæmt samningsdrögunum stefna Hending og Ísafjarðarbær að byggingu reiðskemmu í Engidal og vonir standa til að hún verði reist strax á þessu ári.

 

smari@bb.is

DEILA