Ferðaþjónar landsbyggðarinnar streyma á Mannamót

Það var í nægu að snúast hjá vestfirskum ferðaþjónum á síðustu Mannamótum. Mynd af Fésbókarsíðu Markaðsstofa landshlutanna

Markaðsstofur landshlutanna standa fyrir ferðasýningunni Mannamót 2017 fimmtudaginn 19. janúar í Reykjavík, í ár er yfirskrift Mannamótanna „Sóknarfærin eru á landsbyggðinni.“ Tilgangur Mannamóta markaðsstofanna, sem er nú haldið í fjórða sinn, er að auka dreifingu ferðamanna um landið allt með því að mynda og efla tengsl á milli ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi með því að kynna ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni fyrir ferðaþjónustuaðilum, ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu um viðburðinn segir að þrátt fyrir fjölgun ferðamanna til landsins á seinni árum eru enn mörg ónýtt sóknarfæri á landsbyggðinni og ferðaþjónustan þar í stakk búin að taka á móti fleiri gestum.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og talskona Mannamóta, segir tækifærin mörg í ferðaþjónustunni úti á landi og að hægt sé að taka á móti mun fleiri ferðamönnum en gert sé nú. „Það er óþarfi að hægja á straumi ferðamanna til landsins,” segir hún. „Það þarf bara að beina honum lengra út á landið.”

Hún segir að þótt þróunin þokist í rétta átt sé mikil árstíðasveifla víða á landsbyggðinni og erfiðlega gangi að reka ferðaþjónustufyrirtæki utan háannatímans á sumrin. Eitt af hlutverkum Mannamóta sé að sýna fram á að fjölda vel rekinna ferðaþjónustufyrirtækja sé að finna á landsbyggðinni sem vel geti þjónustað mun fleiri viðskiptavini en gert er í dag.

Þegar hafa 200 ferðaþjónar víðsvegar af landinu skráð sig til leiks á Mannamótin, sem verða sem áður segir haldin fimmtudaginn 19. janúar í flugskýli Flugfélagsins Ernis (vestan við Icelandair Hotel Natura) milli kl. 12 og 17.

annska@bb.is

DEILA