Bolungarvíkurkaupstaður eykur þjónustu við tjaldgesti

Gert er ráð fyrir að endurnýja þjónustuhús við tjaldsvæðið í Bolungarvík á árinu. Markmiðið með húsbyggingunni er að auka þjónustu við tjaldsvæðagesti og verður húsið á opinn hátt tengt við sundlaugarbygginguna. Tjaldsvæðið í Bolungarvík er miðsvæðis í bænum með sundlaugina á aðra hönd og Hólsá á hina. Hið nýja þjónustuhús verður að stærstum hluta borðsalur fyrir gesti tjaldsvæðis, þar verður einnig eldunaraðstaða, þvottaaðstaða og salerni. Bæjarstjóri Bolungarvíkur Jón
Páll Hreinsson segir vonir bundnar við að byggingin verði tilbúin í vor og geti því þjónað gestum frá upphafi sumars.

Samhliða uppbyggingunni á tjaldsvæðinu verður farið í sérstaka markaðsherferð með það að markmiði að kynna hina nýju aðstöðu ásamt annarri þjónustu sem Bolungarvík hefur upp á að bjóða fyrir gesti sína. Í frétt á vef Bolungarvíkurkaupstaðar segir að allar spár gangi út á mikla aukningu ferðamanna til Vestfjarða næsta sumar og þessar framkvæmdir liður í því að bæta þjónustu við þá og auka aðgengi þeirra að Bolungarvík og auka þannig komur þeirra á þessu og næstu árum.

annska@bb.is

DEILA