Aron Ottó sigraði í Vox Domini

Aron Ottó að keppni lokinni með kennara sínum Ingunni Ósk Sturludóttur

Hinn ungi og efnilegi bassasöngvari Aron Ottó Jóhannsson bar sigur úr býtum í miðstigsflokki söngkeppninnar Vox Domini sem fram fór um helgina. Keppnin sem haldin er af FÍS, Félagi íslenskra söngkennara hófst á föstudag með forkeppni, á laugardag fóru svo fram undanúrslit og þeir söngvarar sem komust upp úr þeim kepptu í úrslitakeppninni sem fram fór í gær. Fjöldi fólks mætti á úrslitakeppnina sem fram fór í Salnum í Kópavogi þar sem keppt var í þremur flokkum; miðstigsflokki, framhaldsflokki og opnum flokki.

Aron Ottó sigraði sinn flokk þar sem öttu kappi söngnemendur sem lokið hafa grunnprófi. Í opnum flokki sigraði Gunnar Björn Jónsson, í framhaldsflokki sigraði Ari Ólafsson og þá var Rödd ársins valin, sem er Marta Kristín Friðriksdóttir. Aron Ottó stundar söngnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar undir handleiðslu Ingunnar Óskar Sturludóttur.

annska@bb.is

DEILA