Vilja gefa Töniu og fjölskyldu góða jólagjöf

Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir og Karen Gísladóttir

Stöllurnar Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir og Karen Gísladóttir standa fyrir liðakeppni undir yfirskriftinni „Gerum gagn“ í Stúdíó Dan á Ísafirði þann 10. desember næstkomandi. Keppnin er bæði til gamans gerð, jafnframt því sem hún er fjáröflun fyrir Töniu Ciulwik og fjölskyldu hennar. Tania litla, sem fjallað hefur verið um á vef Bæjarins besta, fæddist þann 1.júní síðastliðinn, er hún var í móðurkviði kom í ljós að hún væri með Downs heilkenni og alvarlegan hjartagalla, svonefndan lokuvísagalla. Þegar litla daman kom svo í heiminn 6 vikum fyrir tímann kom einnig í ljós hjartagallinn Fallot.

Foreldrar Tönju eru þau Elizabeta Mazur (Ella) og Miroslaw Ciulwik. Ella vinnur á sjúkrahúsinu á Ísafirði en Miroslaw vinnur hjá HG í Hnífsdal. Fyrir áttu þau dæturnar Nadiu sem er 5 ára og Sonju sem er 17 ára. Frá því Tania fæddist hafa foreldrar hennar ekki getað stundað vinnu og hefur fjölskyldan þurft að dvelja í Reykjavík vegna veikinda litlu dömunnar. Síðasta mánuðinn hafa þau svo dvalið í Svíþjóð þar sem Tania fór í fyrstu aðgerðina af þeim mörgu sem fyrir henni liggja, hún var talsvert mikið lasin eftir aðgerðina, en fjölskyldan fékk svo þær gleðifréttir í vikunni að daman hefði braggast nógu vel til að hún gæti farið aftur til Íslands.

Kolbrún segir að hún og Karen hafi verið að ræða um nokkurt skeið að hafa einskonar „góðverkadag“ í Stúdíó Dan að fyrirmynd Hressleikanna sem líkamsræktarstöðin Hress í Hafnarfirði hefur staðið fyrir. Hún segir að hún hafi fengið að fylgjast með því kraftaverki sem Tania litla er í gegnum móðursystur hennar Ögu, sem er vinkona hennar og þeim hafi langað til að létta undir með fjölskyldunni og í gegnum Stúdíóið gefa þeim góða jólagjöf.

„Gerum gagn“ er liðakeppni, 6 eru í hverju liði og segja þær engar áhyggjur ef ekki tekst að fullmanna liðin, þá verði því reddað. Vilja þær endilega hvetja keppendur til að mæta í skemmtilegum búningum og finna gott nafn á liðið. Fyrsta liðið fer af stað klukkan 10 og það næsta 15 mínútum síðar og þannig heldur þetta áfram koll af kolli þar til allir eru komnir af stað. Þræða liðin svo áfram í gegnum átta stöðvar með mismunandi verkefnum.

Þátttakendur geta í raun slegið tvær flugur í sama högginu með því að efla samheldni innan vina- eða vinnustaðahópa og styrkt gott málefni í leiðinni. Skora þær Kolbrún Fjóla og Karen á fyrirtæki í bænum að senda inn lið í keppnina. Þátttökugjald er 2.500 krónur á mann og einnig verður tekið við frjálsum framlögum. Hægt er að skrá sig til leiks hjá Kolbrúnu Fjólu á netfanginu kfa81@hotmail.com

annska@bb.is

Tania Ciulwik
Tania Ciulwik
DEILA