Jólaljósin tendruð á Ísafirði og Suðureyri

Á sunnudag er annað dagur aðventu og eru nú þegnar þessa lands teknir til við að koma sér í jólagírinn með ýmsu móti, jafnframt því sem hátíðarundirbúningur er hafinn á mörgum heimilum. Tendrun ljósa á jólatrjám í flestum byggðum bólum er löngu orðið að föstum lið og er það oft tíminn er börnin fá augum að líta fyrsta sinn á aðventunni hina rauðklæddu Grýlusyni, sem nota gjarnan tækifærið til að sýna sig og sjá aðra.

Á Ísafirði verða jólaljósin tendruð á Silfurtorgi á laugardag, hefst dagskrá klukkan 15:30 með Jólatorgsölu Tónlistarskóla Ísafjarðar, stundarfjórðungi seinna stígur Lúðrasveit T.Í. á stokk og 16:10 flytur Gunnhildur Elíasdóttir bæjarfulltrúi hugvekju, í framhaldi af því verður söngatriði frá Barnakór Tónlistarskólans.

Á Suðureyri verða ljósin tendruð á sunnudag klukkan 16. Þar flytur hugvekju Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs. Kvenfélagið verður með kakósölu og fer þar fram söngur lagvissra Súgfirðinga, er segir í tilkynningu frá Ísafjarðarbæ.

Á báðum stöðum er Grýla með í ráðum og sendir hún syni sína til byggða til að gleðja börn og fullorðna með sögum og söng.

annska@bb.is

DEILA