Grýla, jólakötturinn og jólasveinarnir

Andrea Sigrún Harðardóttir

Jólin eru á næsta leiti með tilheyrandi umstangi. Jólasveinarnir koma hver á eftir öðrum til byggða og kannski koma Grýla, Leppalúði og jólakötturinn í kjölfarið. Grýla er víst orðinn gikkur þegar kemur að mat, eins og svo margir í okkar alsnægtarsamfélagi, vill helst ekki venjulegt fæði, eins og óþekk börn fyrir jólin, heldur innfluttar krónhjartasteikur eða akurhænur. Hún vill ekki frekar en aðrir vera heimóttarleg afdalamanneskja sem heldur í gamla siði og venjur. Það er svo lummó. Nú breytir hún þemanu um hver jól og hendir gamla skrautinu út um hellismunnann í lok hverrar hátíðar og útvegar nýtt fyrir næstu jól. Hvað ætli þemað sé hjá henni í ár? Kjarr eða mosi í skreytingunum eða fjalldrapi og fjallagrös?  Eða kannski einiber og mistilteinar?

Leppalúði hlýðir sinni spúsu eins og góðum nútímamanni sæmir og tileinkar sér nýjungarnar enda hættir hann ekki á neitt, vitandi það að hann er þriðji eiginmaður Grýlu. Já, hann er sko númer þrjú í röðinni. Boli dó ellidauða og skildi Grýlu eftir með fjölda barna og Gust át hún, svo að það er eins gott fyrir Leppalúða að halda sér á mottunni.

Hvað jólasveinana varðar finnst mér full ástæða til að tortryggja þá. Eitt sinn voru þeir óvættir sem rændu mat af fólki fyrir jólin og voru ekkert að fela ótuktarskapinn en nú eru þeir klæddir í útlend föt að hætti heilags Nikulásar og þykjast vera góðir, gefa krökkunum í skóinn og dansa við þá á jólaböllum. Reyna að sýnast dálítið einfaldir og barnalegir til að þeirra innri maður sjáist síður. Minna á útlend stórfyrirtæki sem hafa stofnað dótturfyrirtæki hér á landi og láta sem þau sýni samfélagsmeðvitund með því að styðja við hin og þessi málefni, vera góð og svona,  á meðan þau svíkja undan skatti og flytja ágóðann í burtu í skjóli nætur eða ræna samfélagið eins og jólasveinarnir gerðu í denn.

Þó svo að fjármálaráðherrann okkar hafi fullyrt að Íslendingar hefði sjaldan haft það eins gott og núna, þá grunar mig að sá hópur í samfélaginu sem lendir í jólakettinum í ár sé nokkuð fjölmennur. Jólakötturinn opinberar ekki iðju sína en smjattar hins vegar á fórnarlömbum sínum í skuggum og skotum. Hann veit líka að þeir sem ekki þurfa að óttast jólaköttinn eru ekkert að eyðileggja jólastemninguna fyrir sér og sínum með því að kíkja í skotin og skuggana og fylgjast með því sem hann fæst við. Kisi fær því frið til að sinna sínum illverkum og nýtur lífsins í íslenska góðærinu eins og aðrir í hans fjölskyldu.

Vera kann að einhverjum þyki illa farið með gamla, íslenska þjóðtrú, að snúa út úr sögunum og yfirfæra þær yfir á nútímaveruleika. Hvers vegna mega jólasveinarnir ekki vera góðu gæjarnir og gefa krökkum í skóinn, leika við þá og vera fyndnir og skemmtilegir? Jú, vissulega mega þeir það. Hins vegar er full ástæða til að benda á að þessar verur stóðu hér áður fyrr fyrir það sem almenningur óttaðist og kveið mest. Að geta ekki fætt og klætt sig og sína. Verurnar voru táknmynd þess að venjulegt fólk gat hugsanlega ekki fagnað jólahátíðinni vegna þess að matur og föt voru ekki til.

Við getum rifist fram og til baka um það hvort jólin séu kristin hátíð eða heiðin, hvort fara eigi með börn í kirkjuheimsóknir fyrir jólin eða ekki, hvort leggja beri áherslu á jólaguðspjallið og trúna eða þjóðtrúna og sprellið. Satt best að segja skiptir mig engu máli hver uppruninn er. Fyrir mér tákna jólin lífið og ljósið, náungakærleika og væntumþykju. Þau snúast um það að vera manneskja, að sýna náunganum samhygð og minnast þeirra sem farnir eru. Að láta ljósið skína á alla menn. Ljósið getur birst á svo marga vegu og það er auðvelt að beina því inn í sálir fólks, ef við einungis reynum og hugsum. Ljósið getur verið örlítið bros til þeirra sem líður illa, ljósið getur verið aðstoð við þann sem á lítið, ljósið getur verið að sýna auðmýkt og þakka fyrir það sem við eigum en ekki líta á það sem sjálfsagðan hlut. Við getum líka fagnað hækkandi sól og því að daginn sé farið að lengja. Það ljós hjálpar mörgum sem glíma við dimmu í sálinni. Þeir trúuðu fagna komu frelsarans, ljósi lífsins og gleðjast yfir fæðingu hans.

Er það ekki verðugt markmið að gera öllum kleift að halda upp á jólahátíðina, burt séð frá því hvaða merkingu þeir leggja í hana? Er það ekki það sem mestu máli skiptir? Að við gleymum okkur ekki í umbúðunum og átinu heldur minnum okkur sjálf á að við erum manneskjur og berum ábyrgð á öðrum manneskjum, ekki bara okkar sjálfum og okkar nánustu heldur öllum. Hvort sem við trúum á mátt okkar og megin, sólina, orkugjafa sólkerfisins eða ljós heimsins, Jesú Krist, þá hljótum við að geta sameinast um það sem mestu skiptir, náungakærleikann. Við eigum í sameiningu að geta séð til þess að enginn þurfi að óttast þjófótta jólasveina, jólaköttinn eða Grýlu, hvort sem við trúum á þau í raun og veru eða lítum á þau sem táknmyndir skorts og kvíða.

Andrea Sigrún Harðardóttir

DEILA