Draumabarnið – Sjónarmið 45. tbl

Ásthildur Sturludóttir

Þegar þetta er skrifað er ég á 7. viku fæðingarorlofs og nýt hverrar mínútu. Draumabarnið komið í heiminn eftir áralanga bið. Hamingjan er mikil og okkur fjölskyldunni líður eins og við höfum verið bænheyrð. Það er ekki sjálfgefið að fá að eignast barn og sérstaklega ekki þegar maður er nú “hniginn að aldri” eins og segir í Biblíunni. En við gáfumst ekki upp og Lilja kom í heiminn 5. október sl. Litla stúlkan okkar var hins vegar að flýta sér og kom í heiminn 8 vikum fyrir tímann. Ég áttaði mig á því að við stjórnum fáu þegar kemur að því að koma nýju lífi í þennan heim. Þetta átti nefnilega ekki að vera svona. Ég ætlaði að vinna fram á síðasta dag og allt átti auðvitað að vera fullkomið þegar litli unginn fæddist. Það breyttist, náði ekki einu sinni að taka til á skrifborðinu á skrifstofu bæjarstjóra og henda ruslinu! Tyggjóklessan var því enn í fötunni og óhreinir kaffibollar á borðinu þegar ég fór. Og heimferðardressið hennar Lilju var allt, allt of stórt.

Við mæðgur vorum rúman mánuð á Landspítalanum við einstakt atlæti. Það verður seint fullþakkað. Fyrstu vikurnar var ég á sængurlegudeild en síðan í fjölskylduherbergi við Vökudeildina og ég var mjög heppin að fá að dvelja þar. Við erum enn í bænum og höfum ekki enn fengið heimferðarleyfi vestur á Patreksfjörð. Það verður vonandi fyrir jól. Þá verð ég búin að vera hér síðan í lok september. Blessunarlega höfum við aðgang að góðri aðstöðu hér í bænum eftir að við komum út af spítalanum. Slíku er ekki fyrir að dreifa hjá öllum. Við erum því mjög heppnar. Landsbyggðarfólk er nefnilega í misgóðri aðstöðu þegar kemur að þessum málum. Það er fátt verra en að vera fjarri heimili sínu og á hrakhólum, fárveik af meðgöngukvillum nú eða kasólétt á 10. mánuði, rétt nýstigin af sæng eða verandi barn á vökudeild. Tala nú ekki um þegar fleiri börn eru á heimilinu. Konur geta verið í þessari stöðu svo vikum skiptir. Þessu er nauðsynlegt að breyta og ættu að vera sjálfsögð réttindi foreldra utan að landi sem hefðu átt að vera í boði fyrir löngu eða um leið og það varð “hættulegt” að fæða börn út á landi.

Húsnæðisvandi sjúklinga utan að landi er eitt. Almenn sjálfsögð réttindi er annað. Til dæmis eru réttindi foreldra sem eignast barn fyrir tímann mjög takmörkuð. Aukið fæðingarorlof fæst aðeins fyrir þá daga sem barn liggur inni á Vökudeild, ekki aðra daga fram að settum fæðingardag, jafnvel þó að ekki fáist heimild fyrir heimferð frá Reykjavík, barnið komi á göngudeild tvisvar sinnum í viku og sé í raun ekki útskrifað. Það ferli getur tekið margar vikur. Við mæðgur erum t.d. búnar að vera utan Vökudeildar í tæpar fjórar vikur en komumst ekki heim til okkar. Þessi tími dregst af fæðingarorlofinu. Í okkar tilfelli hefur eiginmaður minn ekki átt tök á að vera með okkur allan tímann vegna vinnu fyrir vestan en hann hefur komið suður allar helgar með tilheyrandi kostnaði. Ferðakostnaður er í þessum tilfellum einungis greiddur meðan barn er inniliggjandi á Vökudeild. Ekki er hægt að fá stuðning fyrir þann tíma þegar barnið er komið út af spítalanum en fær ekki heimild fyrir heimferð sem er að öllu leyti óeðlilegt. Það er örugglega margt fleira sem hægt væri að tína til sem snýr að ósanngirni tryggingakerfisins þegar kemur að fjölskyldum fyrirbura utan að landi en hér eru aðeins augljós dæmi nefnd.

Það gera fáar konur ráð fyrir því í upphafi meðgöngu að eignast barn fyrir tímann, að veikjast sjálfar á meðgöngunni nú eða eignast veikt barn. Þetta eru málefni sem fáir huga að sem sitja á Alþingi en ætti að vera einfalt að breyta. Svona nokkuð getur orðið til þess að ungt fólk hrökklist í burtu því það er einfaldlega of dýrt að ferðast á milli landsbyggða og Reykjavíkur með veikt barn eða dvelja fjarri heimili svo vikum skipti í tengslum við fæðingu barna.

Ég skora á nýkjörna þingmenn kjördæmisins að skoða þessi mál og standa fyrir leiðréttingu á þeim.

Ásthildur Sturludóttir

DEILA