Bregðast þarf við niðurstöðum PISA könnunarinnar af fullum þunga

Niðurstöður úr PISA könnunni árið 2015 liggja nú fyrir og benda þær til þess að frammistaða íslenskra nemenda sé lakari en árið 2012 þegar rannsóknin var gerð síðast. Læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi á stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003. Lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en eftir það hefur hann ekki lækkað marktækt.

Í frétt um málið á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að þróunin hér á landi sé mikið áhyggjuefni því á öllum þeim sviðum sem mæld eru hafi árangur íslenskra nemenda dalað mikið frá því að fyrstu mælingar komu fram. Stjórnvöld telja því að í ljósi þeirra niðurstaðna, sem nú liggja fyrir, sé nauðsynlegt að grípa þegar til aðgerða. Í skýrslu Menntamálastofnunar um PISA 2015 eru tillögur um aðgerðir sem mikilvægt er að ríki, sveitarfélög og skólar beiti sér fyrir.

Að mati Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra er ástæða til að bregðast við niðurstöðum PISA könnunarinnar af fullum þunga. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun ásamt Menntamálastofnun boða á næstunni til víðtæks samstarfs og samráðs um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við niðurstöðum PISA 2015.

Um niðurstöður rannsóknarinnar má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

DEILA