Biðja ökumenn að kveikja á ljósum

Kveikja þarf á ljósum nýrra bifreiða

Samgöngustofa vekur athygli á því að margir ökumenn bifreiða séu ólöglegir við akstur sökum ljósaskorts, en margar nýjar bifreiðar eru búnar ljósum sem kvikna þegar bíllinn er ræstur og í fyrstu má halda að um sé að ræða ökuljós en sú er ekki raunin.

Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að víða í umferðinni megi sjá ökumenn nýrra bíla sem gera sér ekki grein fyrir þessu og aka um með takmörkuð ljós og eru jafnvel ljóslausir að aftan. Þessi ljós sem kvikna sjálfkrafa á nýjum og nýlegum bílum eru yfirleitt ófullnægjandi til aksturs þar sem ekki er um að ræða ökuljós og því verða ökumenn sjálfir að sjá til þess að öll „ökuljósin“ séu kveikt.

Ljósabúnaðurinn kallast dagljós og er leyfður á Evrópska efnahagssvæðinu og af þeim sökum er heimilt að flytja slíkar bifreiðar inn til Íslands. Það gegnir hinsvegar öðru máli um notkun þessa búnaðar hér á landi. Það er ljósaskylda hér Íslandi – allan sólarhringinn og allan ársins hring – og því þarf ökumaður að gæta þess að ökuljósin, ekki stöðuljósin, eða eingöngu dagljósin séu kveikt á meðan á akstri stendur. Ljósskynjari þessa dagljósabúnaðar kveikir annars ekki á ökuljósunum fyrr en það rökkvar en utan þess tíma er bara kveikt á ígildi stöðuljósa að framan og í einhverjum tilfellum eru engin ljós kveikt að aftan. Sumir hafa brugðið á það ráð að setja svart límband yfir ljósskynjara bílsins þannig að tölva bílsins skynji aðstæður þannig að það sé myrkur og að hún kveiki því á ökuljósunum strax og bifreiðin er ræst. Margar bifreiðar eru með þannig ljósastillingu að þótt skilið sé við ljósin kveikt þegar slökkt er á bílnum þá slökknar sjálfkrafa á þeim þegar slökkt er á bílnum, hurð bifreiðarinnar er opnuð, bílnum er læst og í sumum tilfellum slökknar á ljósunum stuttu eftir að slökkt er á bílnum. Síðan kviknar aftur á ljósunum sjálfkrafa þegar bifreiðin er ræst.

brynja@bb.is

DEILA