Arnarlaxi ekki borist kæra

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að fyrirtækinu hafi ekki borist stefna frá Málsóknarfélaginu Náttúruvernd 1. Sagt var frá því í fréttum í gær að Málsóknarfélagið hafi birt Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi hf. stefnu þar sem krafist var ógildingar rekstrar- og starfsleyfa vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Víkingur segir í samtali við Ríkisútvarpið að fyrirtækinu hafi ekki borist nein stefna en vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Náttúruverndar 1, sagði í samtali við fréttastofu að hann viti ekki betur en að stefnan hafi verið birt á heimili stjórnarformanns Arnarlax í Kópavogi, líklegast á þriðjudag. Þá segir Jón Steinar hafa hringt í forsvarsmenn Arnarlax hér fyrir vestan fyrir jól og sagt þeim að stefnan og öll meðfylgjandi gögn væru á skrifstofu sinni í Reykjavík. Þeir hafi sagst ætla að sækja gögnin þangað, en ekki gert.

brynja@bb.is

DEILA