50 manns á fiskvinnslunámskeiði

Rúmlega 50 manns hafa í síðustu viku og þessari setið fiskvinnslunámskeið í Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námskeiðið er liður í viðbrögðum Hraðfrystihússins Gunnvarar við hráefnisskorti vegna verkfalls sjómanna.

Hraðfrystihúsið Gunnvör ætlar ekki að grípa til þess að taka fólk af launaskrá, en fram kom í fréttum í morgun að Oddi á Patreksfirði og Íslenskt sjávarfang á Þingeyri hefði gripið til þess vegna hráefnisskorts.

Á námskeiðinu hefur verið kennd námsskrá sem var sérstaklega skrifuð fyrir fiskvinnslufólk og gefur að lokinni starfsþjálfun starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Allir þátttakendur í náminu hafa unnið það lengi í fiskvinnslu að þeir teljast hafa lokið starfsþjálfuninni.

Í náminu er farið í sjálfstyrkingu, samskipti, fjölmenningu, öryggismál, kjarasamninga, gefin yfirsýn yfir greina sem og markaðsmál og síðast en ekki síst er farið ítarlega í gæðamál og meðferð matvæla.

Meirihluti kennara eru heimamenn, en starfólk úr Fisktækniskóla Íslands kenndi 4 námsþætti. Vegna samgönguerfiðleika komu þau ekki vestur heldur kenndu úr Fisktækniskólanum í Grundavík í gegn um samskiptaforritið GoToMeeting. Stefna Fræðslumiðstöðvarinnar hefur verið að þjálfa heimafólk í að kenna þetta nám, en þó er mjög mikilvægt að halda tengslum við Fisktækniskólann, bæði vegna þeirra þekkingar sem þar er og ekki síður vegna samskipta við það ágæta fólk sem þar starfar.

Í fiskvinnslunáminu eru 50 manns frá Hraðfrystihúsinu Gunnvör, auk þriggja frá fyrirtækinu Vestfiski sem tóku hluta námsins sem þau áttu ólokið.

brynja@bb.is

DEILA