Grein

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson.

Guðbjartur Hannesson | 06.02.2007 | 13:51Efnahagsstjórnin – hagvöxturinn og Vestfirðir – grein 2

Í þessari grein ætla ég að skoða enn frekar grein Einars K. Guðfinnssonar, „Vonbrigði ESB – daðrara” á vef BB frá 25. janúar s.l. Ráðherrann segir í greininni að viðskiptahallinn sé til staðar en fari ört minnkandi og að verðbólgan sé of mikil en hjaðni hratt. Þetta les ég þannig að efnahagsbatinn í landinu hefur verið greiddur með miklum erlendum lántökum, ekki síst vegna þenslu af stóriðju- og virkjanaframkvæmdum, aðgerðum ríkisstjórnar og útlánakapphlaupi einkavæddu bankanna í húsnæðismálum á sama tíma. Það er gott að spáð er lækkaðri verðbólgu, en gleymdi ráðherrann ekki að taka fram að skaðinn er skeður, verðbólgan hefur þegar hækkað skuldir heimila og fyrirtækja um tugi ef ekki hundruð milljarða. Gleymdi ráðherrann ekki að taka fram að vaxtaokrið hefur kostað sömu aðila álíka upphæðir. Áhrif verðbólgunnar verða ekki tekin til baka, við megum borga hærri afborganir af húsnæðislánum okkar næstu 25-40 ár.

Hin ósýnilegu „tæki og tól“ efnahagsstjórnarinnar

Gaman væri ef ráðherrann lýsti „tækjum og tólum“ efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar, sem hann segir að hafi verið notuð til að bregðast við ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Var eitt tólanna frestun á vegaframkvæmdum á Vestfjörðum s.l. sumar? Eru það okurvextirnir á einstaklinga og smærri fyrirtæki, þá sem ekki hafa þegar fært lán sín í erlenda gjaldmiðla? Er það togstreitan á milli stýrivaxtahækkana Seðlabankans og þenslufjárlaga ríkisstjórnarinnar, sem þýddi að erlent matsfyrirtæki lækkaði lánshæfismat íslenska ríkisins rétt fyrir jólin?

Ráðherra nefnir réttilega að hér hefur verið óverulegt atvinnuleysi, sem betur fer, en gleymdi hann ekki að nefna að skortur á vinnuafli hefur kallað á langan vinnudag og á stórauknum fjölda innflytjenda. Var það þetta sem fyrrverandi fjármálaráðherra og núverðandi forsætisráðherra var að hvetja til þegar hann rökstuddi afnám hátekjuskatts með því að hann væri vinnuletjandi?

Það sem ráðherrann kallar „pólitíska stefnumótun“ ríkisstjórnarinnar, kalla ég stjórnleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, sem hefur kallað ójafnvægi yfir okkur og leitt til umræðunnar um stöðu íslensku krónunnar. Ég vænti þess að reyndir stjórnmálamenn, stjórnarþingmenn og ráðherra eins og Einar K. Guðfinnsson skýri betur fyrir Vestfirðingum hvers vegna íbúum hefur fækkað á svæðinu um 20% á árunum 1990 – 2003 og afhverju íbúaþróunin er enn á niðurleið. Skyldi kvótakerfi í sjávarútvegi og landbúnaði eiga sinn þátt í því? Hver kom því kerfi á? Skyldu samgöngumál fjórðungsins eiga sinn þátt í íbúaþróuninni? Hver fer með samgöngumálin? Stuðlaði sala Landssímans með grunnnetinu að bættum hag Vestfirðinga? Stuðluðu helmingaskipti ríkisstjórnarinnar á ríkisbönkunum að bættri stöðu landsbyggðarinnar? Ef svo er, lýsir það sér þá helst í uppkaupum þeirra sem fengu bankana að gjöf á jörðum í héraðinu? Það er mörgum spurningum ósvarað um efnahagsstjórn eða stjórnleysi s.l. ára og ég treysti því að ráðherrann upplýsi íbúa Vestfjarða betur um ágæti stefnunnar.

Sáttmáli um jafnvægi

Samfylkingin kynnti á opnum fundi á Ísafirði nýlega hugmyndir um „Sáttmála um jafnvægi“. Það verður baráttumál okkar í komandi kosningum að stöðva misréttið í samfélaginu, að tryggja jöfnuð „milli landsbyggðar og höfuðborgar, milli karla og kvenna, Íslendinga og innflytjenda, umhverfis og stóriðju, hagvaxtar og stöðugleika og Íslands og Evrópu.“ Meginmálin verða bættar samgöngur og þ.m.t. uppbygging á síma og háhraðanettengingum og samræmd gjaldskrá fyrir þá þjónustu, átak í menntamálum, þar sem mikilvægast er að tryggja framhaldsnám í heimahéraði og efla háskólastigið í fjórðungnum og velferðarmálin þar sem hlutur eldri borgara og öryrkja verður stórbættur og grunnþjónustan tryggð. Forsenda alls þessa er að koma efnahagsstjórninni í lag, þar sem snúa verður af braut ójöfnuðar og óstöðugleika. Ég vona að Vestfirðingar styðji Samfylkinguna til breytinga. Við þurfum nýja ríkisstjórn, nýjar hugmyndir og fólk sem af fullum kjarki og undanbragðalaust tekst á við byggðamálin og jafnar aðstöðu fólks og fyrirtækja í landinu.

Guðbjartur Hannesson, skipar 1. sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi