Sælkeri vikunnar

Sælkeri vikunnar – Sigrún Baldursdóttir á Ísafirði | 10.12.2004Kjúklingapasta

Sælkeri vikunnar býður að þessu sinni upp á kjúklingapasta sem er eftirlætisrétturinn á heimili hennar. Sigrún segir að þar sem hentugt sé að nota afgangs grænmeti séu engar mælingar á því hve mikið er af hverju heldur fari það eftir smekk hvers og eins. Sigrún mælir með því að rétturinn sé borinn fram með fersku salati og hvítlauksbrauði. Einnig býður hún upp á gómsætan bláberjaeftirrétt sem er borinn fram heitur með ís.

Kjúklingapasta

2-3 kjúklingabringur
Blómkál
Gulrætur
Brokkólí
Sveppir
paprika
2 msk pestó
¼ - ½ l rjómi
2-3 msk rjómaostur
Svartur pipar
Kjöt og grill
olía til steikingar
¼ - ½ poki pasta

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum. Skerið grænmetið og steikið á pönnu í smá olíu og kryddið með svörtum pipar. Takið af pönnunni og skerið bringurnar í bita. Steikið bitana í smá stund og kryddið með pipar. Setjið grænmetið saman við og látið malla smá stund. Hellið síðan rjóma, pestó og rjómaosti yfir og kryddið. Setjið pastað út í og látið blandast vel saman.

Bláberjaeftirréttur

2 ½ dl hveiti
2 ½ dl kókosmjöl
1 ½ dl sykur
150 g smjör
Bláber

Setjið botnfylli af bláberjum, frosnum eða ferskum, í eldfast mót. Hnoðið saman hveiti, kókosmjöl, sykur og smjör. Hafið smjörið frekar kalt. Myljið deigið yfir berin og bakið uns það fer að verða brúnt. Berið fram með ís.

Ég skora á Einar Gunnlaugsson á Ísafirði til að verða næsti sælkeri vikunnar.


Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi