Sælkeri vikunnar

Sælkeri vikunnar - Helga Guðbjartsdóttir á Flateyri | 05.03.2004Pönnusteikt keila og ostakaka

Helga Guðbjartsdóttir tók við djarflegri áskorun frá Láru Thorarensen og ákvað að leggja fram uppskrift að pönnusteiktri keilu og ostaköku. Fiskur er sífellt meira metinn sem hráefni í matargerð og jafnframt eru sífellt fleiri tegundir og matreiðsluaðferðir að rata inn á borð landsmanna. Vafalítið á keiluuppskriftin eftir að vinn á sitt band einhverjar vanafastar ýsuætur.

400 g roð- og beinlaus keila eða annar fiskur
3 msk söxuð græn epli
3 msk sneiddur rauðlaukur
1 til 2 tsk karrý
1 til 2 rif saxaður hvítlaukur
½ tsk timian
1 dl fisksoð
1 dl mysa
1 dl rjómi
salt og pipar eftir smekk

Veltið fiskinum upp úr heilhveiti sem kryddað er með salti, pipar og örlitlu karrý. Steikið fiskinn í smjöri eða olíu þar til gullbrúnn. Haldið fiskinum heitum meðan sósan er löguð. Bætið smjöri á pönnuna, u.þ.b. einni matskeið, og brennið karrýið aðeins í því. Setjið svo eplin og laukinn út í. Sjóðið upp með fisksoði og mysu í u.þ.b. 3 til 4 mínútur. Jafnið með rjóma og bragðbætið með salti og pipar.

Berið fram með grænu salati og nýjum soðnum kartöflum.


Ostakaka
200 g mulið kex (t.d. gróft hafrakex)
5 msk sykur
1 tsk kanill
75 g brætt smjör

Ostakremið
200 g rjómaostur
5 blöð matarlím
6 msk sykur
2 eggjarauður
2 eggjahvítur (þeyttar)
1 peli rjómi.
rifinn börkur af ½ sítrónu

Blandið saman muldu kexi, sykri og kanil og látið brætt smjörið saman við. Hringur af formi (án botns) er látinn á diskinn sem kakan á að berast fram á. Setjið kexdeigið innan í hringinn og vel að köntunum. Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn og bræðið síðan. Hrærið rjómaostinn með eggjarauðunum og sykrinum. Þeytið rjómann sem og eggjahvíturnar (hvort í sínu lagi). Látið matarlímið í ostakremið og síðast er þeytta rjómanum og eggjahvítunum bætt út í. Látið kremið í hringinn yfir kexdeigið. Látið stífna áður en kakan er skreytt með ferskum eða niðursoðnum ávöxtum eftir smekk hvers og eins. Hringurinn er ekki tekinn af fyrr en kakan er borin fram.

Skreytið með ferskjum, vínberjum, jarðarberjum eða mandarínum eftir smekk.

Ég vil nota tækifærið og skora á Guðrúnu Pálsdóttur, útgerðarspekúlant á Flateyri, að færa okkur góða uppskrift af línuívilnun þessa árs.
Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi