Sælkeri vikunnar

Sælkeri vikunnar – Þórlaug Ásgeirsdóttir á Ísafirði | 21.02.2011Veislumáltíð að hætti Þórlaugar

Hún býður upp á súpu sem hentar vel í forrétt, hægeldaða lambaskanka Óperunnar með lambasoðsósu ásamt hvítlaukskartöflumús í aðalrétt og köku í eftirrétt.

Humarsúpa

500 g humar í skel
3 stk. fiskiteningar
3 stk. meðalstórar gulrætur
4 stk. hvítlauksrif
2 l vatn
2 stk. laukar
1 stk. græn paprika
1 l matreiðslurjómi

Smjör til að steikja skeljarnar og ljós sósuþykkir. Humarinn er skelflettur og hreinsaður. Skeljarnar brúnaðar í potti ásamt hvítlauknum við vægan hita. Vatni, gróft skornum lauk, papriku og gulrótum bætt útí og látið krauma í 10 tíma.
Soðið er sigtað og fiskikraftinum bætt út í. Soðið er þykkt með sósujafnaranum eftir smekk og rjómanum bætt saman við. 15 mín. áður en súpan er borin fram er humarinn settur út í. Passið að súpan sjóði ekki eftir það, humarinn á einungis að hitna í gegn. Súpan er borin fram með heitu hvítlauksbrauði.

Hægeldaðir lambaskankar Óperunnar

4 lambaskankar
3 gulrætur, skornar í bita
2 stórir laukar, saxaðir
Salt og pipar
1 ½ msk. lambakraftur
3 hvítlauksrif, söxuð
1 búnt ferskt rósmarín
1 búnt ferskt tímían

Lambaskankar, gulrætur og laukur brúnaðir vel á pönnu, kryddað með salti og pipar. Allt sett í ofnpott ásamt 2 l af vatni. Lambakrafti, hvítlauk, rósmarín og tímían er bætt saman við. Pottinum er lokað og eldað í 140°C heitum ofni í 3 ½ klst.

Lambasoðsósa

1 l lambasoð
Sósulitur
Maizena-mjöl
70 g smjör

Soðið af skönkunum sigtað í pott og soðið niður um 1/3. Sósulit bætt við og sósan þykkt með Maizena eftir smekk. Að lokum er smjörinu hrært út í, sósan má ekki sjóða eftir að smjörið er komið út í.

Hvítlaukskartöflumús

5 bökunarkartöflur
100 g smjör
2 dl rjómi
2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
Salt og pipar

Afhýðið kartöflunar, skerið þær í meðalstóra bita og sjóðið. Allur vökvi sigtaður frá, kartöflurnar settar aftur í pottinn og þær stappaðar. Bætið smjöri, rjóma og hvítlauk út í. Hrært vel saman og kryddað með salti og pipar eftir smekk. Auðvitað þarf ekkert endilega að vera með bökunarkartöflur, venjulegar eru líka fínar og ef þær eru nýjar er alveg óþarfi að vera að afhýða þær.

Konungleg kaka

280 g 70% súkkulaði
280 g smjör
9 egg – aðskilin
280 g sykur
1 tsk vanillusykur

Brytjið súkkulaðið í pott og bræðið ásamt smjörinu við vægan hita, hrært stöðugt.
Þeytið saman eggjarauður, sykur og vanillusykur. Súkkulaðiblöndunni hrært saman við.
Eggjahvítur stífþeyttar og þeim blandað varlega saman við með sleikju. Ath. að deigið sé orðið kalt áður en eggjahvítunum er blandað saman við, þ.e. að súkkulaðið fari ekki of heitt út í eggin og sykurinn. Einnig þarf að passa að blanda hvítunum ekki og vel saman við deigið þannig að loftið fari úr hvítunum.
Setjið helminginn af deiginu í skál og geymið í ísskáp. Setjið hinn helminginn í 22 cm smelluform og bakið í 180°C heitum ofni í ca 1 klst. Kakan kæld. (Athugið kökuna eftir 50 mín. í ofninum, ef hún er aðeins blaut þá er það nóg).
Setjið bakaða botninn á tertufat og bregðið hringnum af smelluforminu utan um (lokið hringnum).
Hellið kælda súkkulaðideiginu yfir og látið kökuna standa í ísskáp í einn sólarhring áður en hún er borin fram. (Það dugir alveg að kæla kökuna í 12 klst.).

Jarðaberjasósa

Fersk eða frosin jarðaber
Flórsykur

Maukið jarðaberin og bragðbætið með flórsykri (ca 1 tsk).Borið fram með kökunni

Ég skora á systur mína og hennar mann Sigríði Guðfinnu Ásgeirsdóttur og Gunnar S. Sæmundsson á Ísafirði.


Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi