bb.is | 02.11.2012 | 14:59Saltverk í Reykjanesi í útrás

Saltverk framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt.
Saltverk framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt.
„Staðan er góð. Við erum að vinna í því að auka framleiðslugetuna til að anna eftirspurn, bæði innanlands sem utan og það er fyrst núna í haust sem við sjáum fram á að geta það,“ segir Björn Steinar Jónsson, annar eigenda Saltverks ehf., í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Björn Steinar og Garðar Stefánsson, stofnuðu fyrirtækið fyrir rúmu ári og er það eina fyrirtækið hérlendis sem framleiðir kristalsjávarsalt. Björn Steinar segir að fyrirtækið þjónusti um 100 fyrirtæki í landinu. Ríflega 90% þeirra eru smáfyrirtæki eins og fiskbúðir og veitingastaðir. Flest fyrirtækjanna eru á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu.

Framleiðsla Saltverks hefur verið til sölu í versluninni The Meadow í New Portland og í New York en verslunin er af mörgum talin fremst í sínum flokki þegar kemur að verslun með salt. Verslunin seldur til að mynda 110 salttegundir frá 26 löndum. Fyrirtæki í Bandaríkjunum, Ástralíu, Austurríki og Ítalíu hafa sýnt saltinu mikinn áhuga og fjöldinn allur af fyrirspurnum berast reglulega til Saltverks. Björn Steinar er nýkominn af heimssýningu Slow Food samtakanna sem haldin var á Ítalíu og segir Björn að allt salt sem þeir félagar tóku með sér hafi selst upp. Þá hafa nokkrar fyrirspurnir borist í kjölfar sýningarinnar.

Björn Steinar segir að stefnan sé að koma saltinu á markað í Evrópu og til að byrja með verða sendar litlar pakkningar af saltinu þangað. En hvað gerir saltið frá Saltverk svona vinsælt? „Ég vil meina að það sé sambland af nokkrum þáttum, til dæmis saga gamla saltverksins í Reykjanesi sem heillar marga og svo að saltið okkar er hrein og tær náttúruafurð. Unnið úr hreinum sjó og eimað með heitu vatni en ekki gasi eins og Norðurlöndin nota,“ segir Björn Steinar og er ánægður með viðbrögðin sem saltið hefur fengið bæði innanland og erlendis.

audur@bb.is