Íþróttir hérlendis í alþjóðlegu samhengi

Komin er út ný bók, Íþróttir hérlendis í alþjóðlegu samhengi, eftir dr. Ágúst Einarsson, prófessor emeritus.

Þetta er fyrsta bók sinnar tegundar þar sem fjallað er ítarlega um íþróttir hérlendis, þær greindar í alþjóðlegu samhengi og framlag til verðmætasköpunar metið.
Í bókinni er sögu íþrótta lýst og sagt frá fjölda íþróttafólks, innlendu sem erlendu. Íþróttir hérlendis eru bornar saman við íþróttir í nágrannalöndunum.
Fjallað er um mikilvægi íþrótta fyrir börn og unglinga svo og fyrir eldri borgara en þeir byggðu upp íþróttahreyfinguna, stærstu fjöldasamtök Íslendinga.
Greint er frá skipulagi íþrótta og tengslum við alþjóðavæðingu og heilbrigðismál en íþróttir hafa mikið forvarnargildi.
Sagt er frá mismunun og misnotkun í íþróttum, sem er mikil og mun meiri en fólk heldur.
Fjárhagsleg umsvif íþrótta eru greind og framlag íþróttageirans til landsframleiðslu er metið en slík greining hefur ekki verið gerð áður. Íþróttir eru mikilvægur þáttur í lífskjörum landsmanna.

Dr. Ágúst Einarsson er prófessor emeritus, fyrrverandi rektor og alþingismaður. Ágúst hefur skrifað fjölda bóka. Í bókarlok eru lagðar fram tólf tillögur til að efla íþróttir hérlendis en íþróttir verða ein mikilvægasta efnahagsaðgerð framtíðarinnar. Bókin er tæpar 300 bls. og Háskólinn á Bifröst gefur bókina út.

Bókin er tileinkuð eldri borgurum sem lögðu grunn að öflugu íþróttastarfi Íslendinga og frábærum árangri á erlendum vettvangi.

DEILA