Grein

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Halldór Halldórsson | 27.04.2002 | 20:15Perlan Vestfirðir

Perlan í Öskjuhlíð í Reykjavík mun hýsa atvinnuvegasýningu Vestjarða 3.– 5. maí n.k. Heiti sýningarinnar, Perlan Vestfirðir, er viðeigandi vegna nafns sýningarstaðar og þess sem augljóst er, en Vestfirðir eru mikil perla, hvort heldur horft er til óviðjafnanlegrar náttúru eða mannlífs. Þarna verður að sjá sýnishorn úr atvinnulífi Vestfjarða og kynningu á þeim fjölbreyttu möguleikum sem ferðaþjónusta svæðisins býður upp á.
Innan Ísafjarðarbæjar starfa framsækin hátæknifyrirtæki tengd sjávarútvegi sem hafa heiminn allan sem sitt markaðssvæði. Öflugir frumkvöðlar hafa skapað þessi fyrirtæki. En slík fyrirtæki þurfa líka á réttum aðstæðum að halda. Ísafjarðarbær er gott dæmi um öflugan kjarna (cluster) þar sem sterkar grunneiningar í sjávarútvegi og vinnslu, skapa kröfuhart umhverfi sem vettvang fyrirtækja með framleiðsluvörur sem standast hörðustu kröfur.

Ísafjarðarbær verður kynntur sérstaklega á sýningunni en sveitarfélagið er í hópi stærri sveitarfélaga landsins og býður upp á góða þjónustu á öllum sviðum mannlífsins. Ísafjarðarbær verður kynntur sem áhugaverður kostur til ferðalaga, viðskipta og búsetu.

Það er von aðstandenda sýningarinnar, Perlan Vestfirðir, að hún verði til þess að auka enn frekar áhuga almennings á Vestfjörðum sem ferðamannasvæði og til búsetu. Sýningin mun byggja á bjartsýni, frumkvæði, framsýni og skemmtun. Hún er mikilvægur liður í jákvæðri kynningu á Vestfjörðum en í samkeppni um fólk og fyrirtæki skiptir máli að vera sýnilegur með jákvæðum og um leið raunsæjum hætti. Það er fátt sem getur verið jákvæðara en um leið raunsætt að fá fyrirtæki svæðisins til að kynna fjölbreytta þjónustu sína og framleiðslu. Það sýnir styrk okkar samfélags hversu margbreytilegt atvinnulífið er.

Sýningin undirstrikar mikilvægi ferðaþjónustu á svæðinu sem sífellt er að aukast, ár frá ári. Þar hefur markviss stefna, markviss uppbygging á þjónustu og aðstöðu markað hvert skrefið á fætur öðru við að gera ferðaþjónustuna að stærri atvinnuvegi á Vestfjörðum. Tækifærin eru okkar og við erum sífellt að nýta þau betur.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi