Grein

Guðni A. Einarsson.
Guðni A. Einarsson.

Guðni A. Einarsson | 18.04.2002 | 09:35Afsökunarbeiðni

Kæru Súgfirðingar! Um leið og ég óska nágrönnum okkar til hamingju með nýafstaðna byggðakvótaúthlutun langar mig til að biðja ykkur afsökunar. Þannig er mál með vexti að ég hef nú til margra ára reynt að vinna með því fiskveiðistjórnarkerfi sem í gildi er í það og það skiptið. Árið 1999 voru sett lög um að aukategundir í þorskaflahámarkinu yrðu settar í kvóta. Síðan þá hef ég verið að reyna að búa mig undir að þessi lög tækju gildi og fjárfest í hlutdeild á ýsu og steinbít og flutt á bát í minni eigu sem á heimahöfn á Suðureyri. Eftir endurtekna frestun tóku þessi lög gildi 1.september í haust.
Fyrir viku var síðan úthlutað byggðakvóta til þeirra byggðarlaga sem verst þóttu hafa farið út úr áðurnefndri kvótasetningu. Þá gerast þau undur og stórmerki að Suðureyri er nánast ekki með í þeirri úthlutun. Staður, sem hefur átt allt sitt undir veiðum smábáta síðan uppúr 1990! Og hver er ástæðan? Jú, mismunurinn á veiðinni í fyrra og úthlutuninni í ár náði ekki ákveðinni viðmiðunartölu sem einhvers staðar hafði verið fundin út. Það þýðir að þær aflaheimildir sem ég hef verið að eignast á undanförnum árum, til að búa mig undir að lögin taki gildi, verða beinlínis til þess að byggðakvóti til annarra báta á staðnum er lækkaður sem því nemur.

Ég vil því hér með biðja ykkur innilega afsökunar á þessu frumhlaupi og því að minnka samkeppnishæfni okkar á Suðureyri með því að eyða peningunum í það sem við hefðum ella fengið og aðrir fá frítt. Ekki svo að skilja að við séum ekki vanir svona trakteringum hér, því ekki höfum við séð svo mikið sem einn sporð af þeim byggðakvóta sem var úthlutað til okkar síðast, þá var það bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og Byggðastofnun sem sáu um að færa hann öðrum. Ég held að við hljótum því að vera næstir í röðinni en þangað til þurfum við bara að bíta í skjaldarrendur og hjálpa okkur sjálfir eins og við höfum gert hingað til.

Guðni A. Einarsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi