Grein

Áslaug Jóhanna Jensdóttir.
Áslaug Jóhanna Jensdóttir.

Áslaug Jóhanna Jensdóttir | 28.02.2007 | 09:40Menntatengd ferðaþjónusta á Vestfjörðum

Um helgina (á helginni!) sat ég námskeið í og á vegum Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði, um menntatengda ferðaþjónustu. Efnið var yfirgripsmikið sem skilur eftir sig bjartar minningar og vonir í huga mínum. Það voru flutt fræðandi og skemmtileg erindi af hálfu fyrirlesara sem voru aðkomnir auk heimamanna, ekki spilltu fallegar og skemmtilega myndskreyttar glærur sem varpað var á vegginn. Námskeiðið og upplifunin á því, vakti mig allt til umhugsunar enn og aftur um hvað Vestfirðir hafa upp á ótalmargt að bjóða og hvað það eru í rauninni mikil forréttindi að vera Íslendingur og búa á Íslandi og ekki síst að vera Vestfirðingur og búa á Vestfjörðum. Hér erum við með endalausa möguleika til að njóta og fræðast um hvort sem það snýr að náttúrunni eða sögunni, að ógleymdu því sem snýr að ýmiskonar listum og menningu.

Hér var staddur hópur af meistaranemum frá Háskóla Íslands og gafst almenningi af svæðinu kostur á að sækja námskeið með þeim. Við vorum þá orðin nemendur, heimamenn, ferðamenn og gestir! Við fórum m.a. í Sjóminjasafnið á Ísafirði, í Náttúrugripasafnið Bolungarvík með viðkomu á Náttúrustofu, fengum súpu í Einarshúsi, það var farið í Ósvör, þar nutum við leiðsagnar safnafólks og heimamanna. Eftir ferðina til Bolungarvíkur var farið vestur í Dýrafjörð undir leiðsögn Þóris Arnar Guðmundssonar, hann fræddi okkur um ýmislegt á leiðinni ekki síst úr sögu Gísla Súrssonar, leiðin lá í Haukadal, þar sem við fengum notalegar móttökur í samkomuhúsinu, þar sem beið okkar kaffi, pönnukökur og fleira þjóðlegt góðgæti sem Marsibil Kristjánsdóttir sem á húsið ásamt manni sínum Elfari Loga Hannessyni, henni til aðstoðar var m.a. móðir hennar, en hún sýndi mér dýrindis listaverk, útprjónaða vettlinga sem hún hafði sjálf prjónað. Þarna vorum við komin í leikhús, við heimilislegar aðstæður, fengum þjóðlegar veitingar og sáum handverk. Allt þetta er dæmi um hæfileika sem í fóki býr og í mínum huga þyrftum við að gera miklu meira af því að flétta saman fjölbreytileikanum sem við „lúrum á“ hérna!

Úr Haukadalnum lá leiðin til Þingeyrar á Víkingasvæðið, þaðan var ekið í átt að Núpi og fram hjá Skrúði og enn vorum við að sjálfsögðu á Sagnaslóðum! Þegar ekið var þangað út eftir spratt leiðsögumaðurinn Þórir Örn upp úr sæti sínu og vakti athygli okkar á sel sem sat á steini við fjöruborðið. Í bakaleiðinni var kominn annar selur. Fegurðin sem blasti alls staðar við okkur var stórfengleg, hvít og tignarleg fjöllin umkringdu allt eins og leikmynd, sólin skein, auk þess sem tunglið sást á heiðskírum himninum.

Með þessu móti sé ég hvað hægt er að gera með góðri skipulagningu og jákvæðu hugarfari. Heimsókn fólks inn á svæðið, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða hópa, þá hefur .það allt mikil margfeldisáhrif. Í þessu tilfelli kom hópur fólks vestur, það þurfti gistingu og fæði. Dagana sem námskeiðið stóð yfir voru veitingar á boðstólum, það þurfti farartæki til að koma okkur á milli staða. Sameiginlegur kvöldverður var í boði fyrra kvöldið eftir það lögðu margir leið sína á aðra veitinga- og skemmtistaði í bænum. Með því að bjóða upp á Menntatengda ferðaþjónustu þá bætist við spennandi kostur sem hleypir lífi í ýmsa þjónustu sem er erfitt að halda úti nema yfir „háannatímann“, hægt er að auka fjölda gistinátta og veltuna í samfélaginu svo um munar.

Ég hef reynt að fylgjast með öllu sem kynnt hefur verið og fjallað um hér á svæðinu um varðandi „klasa“ eða „klasasamstarf“ og tel að allt slíkt geti nýst okkur mjög vel og fæ ekki betur skilið en að reynslan sem komin er úr Sjávarútvegsklasanum gefi góða raun. Vonandi tekst að virkja okkur sem mest og best í Menningar- og ferðaþjónustuklasanum og að það sem ég upplifði um helgina sé bara byrjunin og smjörþefurinn af því sem koma skal!

Ég lýk þessu með orði sem ritað var á eina glæru á námskeiðinu um helgina (á helginni), eitt orð- þrjár línur:

Samstarf
Samstarf
Samstarf

Áslaug Jóhanna Jensdóttir ferðaþjónn. Gisting Áslaugar – Faktorshúsið í Hæstakaupstað við Austurvöll á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi