Grein

Gísli H. Halldórsson.
Gísli H. Halldórsson.

Gísli H. Halldórsson | 25.02.2007 | 11:11Vefsíða Ísafjarðarbæjar

Það er full ástæða til að vekja athygli á vef Ísafjarðarbæjar www.isafjordur.is. Þessi vefur hefur farið stöðugt batnandi undanfarið og er orðinn einkar áhugaverður. Bæjarbúar ættu endilega að kynna sér vef sveitarfélagsins og koma á framfæri skoðunum sínum á honum. Vefur Ísafjarðarbæjar er vefurinn okkar og það ætti að vera markmið íbúanna að hann verði gagnlegt tæki til að þjónusta okkur bæjarbúana og góð ásjóna bæjarfélagsins. Með ábendingum sínum geta bæjarbúar gert þennan vef enn betri en hann er í dag.

Ýmis tól er að finna á vefsíðu Ísafjarðarbæjar. Eitt þeirra er leitarvél til að finna fyrirtæki og stofnanir í Ísafjarðarbæ. Þetta er nokkuð sniðugt tæki sem tengist leitarvél Finna.is, þó þarna mættu vera gjarnan vera betri upplýsingar. T.d. finn ég ekki neitt ef ég slæ inn orðinu „raftæki“. Ef ég hins vegar slæ inn orðbútnum „ferða“ þá kemur upp orðið „Ferðaþjónusta“ og ef ég smelli á það þá fæ ég m.a. upp „Fylkir.is – ferðaskrifstofa“. Þarna vantar þó inn einhver fyrirtæki og því held ég að það sé ganglegt að fyrirtækjum og þjónustuaðilum sé bent á að þessi möguleiki er fyrir hendi. Ég sé strax að ýmsir aðilar ættu að fara fram á að fá leiðréttar upplýsingar um sig hjá Finna.is. Þessir aðilar eiga, að því er ég best veit, rétt á að vera skráðir með ákveðinn grunnatriði, en mega ráða því sjálfir hvort þeir borga gjald fyrir að fá ítarlegri skráningu.

Mér sýnist það hafi verið gagnlegt sem gert var, að senda út ábendingu um þetta mál í tölvupósti. Eðlilegt var að kynna á sama tíma tilboð fyrir þá sem vilja vera með ítarlegri upplýsingar og tengla hjá Finna.is, úr því að slíkt tilboð lá fyrir. Það verður svo auðvitað að gera þá skýlausu kröfu til rekstraraðila að þeir kunni fótum sínum forráð og viti sjálfir hvað þeir eiga að kaupa og hvað ekki. Misjafnt hentar mörgum.

Forráðamenn Ísafjarðarbæjar telja það í sínum verkahring að bæta þjónustu við íbúana, aðstöðu fyrirtækja og ímynd sveitarfélagsins. Hjálp allra sem hjálpað geta er þó nauðsynleg og vel þegin.

Gísli H. Halldórsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi