Grein

Fylkir Ágústsson.
Fylkir Ágústsson.

Fylkir Ágústsson | 23.02.2007 | 10:22Ruslpóstur á vegum Ísafjarðarbæjar?

Á hverjum degi berast mér allskonar tilboð í netpósti. Á hverjum morgni fer smá tími í að eyða þessum pósti, þrátt fyrir það þá segja Snerpu-menn mér að ég fái bara hluta, þeir eyði sjálfir langmestu af þessum pósti áður en hann kemst til okkar tölvunotanda. Þessi póstur hefur oftast fengið hið virðulega nafn „Nígeríu-póstur“ þrátt fyrir að aðeins hluti sé þaðan. Allur þessi póstur felur í sér mjög góð tilboð að mati sendanda - frábær tilboð um eitt og annað.

Í gær barst mér hinsvegar allt sérstæður póstur á vegum Ísafjarðarbæjar, frábært tilboð þar sem leigufyrirtæki í þjónustu Ísafjarðarbæjar sendir fleiri hundruð netpósta með frábæru „Nígeríu-tilboði“ um að komast á vefsíðu Ísafjarðarbæjar með tengingu fyrir litlar 29.900 krónur árlega. Svo við fáum svolítið samhengi í hlutina þá kostar það aðeins 4.485.000 fyrir um 150 fyrirtæki að nýta þér þetta frábæra tilboð að komast með tengil á vefsíðu Ísafjarðarbæjar – eða mjög góð árslaun fyrir starfsmann í Reykjavík.

Allir sem lesa BB á netinu hafa séð allmarga tengla, bæði fyrirtækja, stofananna og jafnvel einstaklinga héðan á Vestfjörðum, sem og aðila utan Vestfjarða. Veffang míns fyrirtækis hefur verið þar án þess að BB hafi nokkurn tíma lyft litla puta til að innheimta leigugjald fyrir það. Þökk sé BB og mér er vel ljóst að BB-vefurinn hefur margfalt auglýsingagildi á við heimasíðu Ísafjarðarbæjar.

Ef forráðamenn Ísafjarðabæjar telja það í sínum verkahring að efla atvinnulíf annara bæjarfélaga utan Ísafjarðar eða Vestfjarða með slíku verkefni - þá þeir um það. Ég mun ekki taka þessu tilboði. Á minni heimasíðu hef ég marga tengla án endurgjalds. Ég vildi gera viðskiptavinum mínum auðveldara að sækja þjónustu á minni heimasíðu og koma þannig minni þjónustu líka á framfæri.

Hins vegar get ég boðið Ísafjarðarbæ að vera með tengill á minni heimasíðu fyrir kr. 29.900 + vsk á ári.

Ísafirði 23. febr. 2007,
Fylkir Ágústsson, framkv.stjóri,
Fylkir.is ferðaskrifstofa.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi