Grein

Sigurður Hreinsson.
Sigurður Hreinsson.

Sigurður Hreinsson | 20.02.2007 | 11:22Til hamingju Bolvíkingar!

Ég vil hér óska Bolvíkingum til hamingju með það að vera svo gott sem búnir að tryggja sér það að fá jarðgöng, í stað vegarins um Óshlíð. Það eina sem skyggir á gleði mína við það að þetta brýna öryggismál vegfarenda skuli vera komið í höfn, er sú staðreynd að því fylgir töluverður fórnakostnaður. Það var ljóst frá upphafi að í baráttunni fyrir að fá þessi göng yrði vegið að tengingunni milli suður- og norðusvæða Vestfjarða. Og það er núna orðið ljóst að göngin til Bolungarvíkur munu seinka Dýrafjarðargöngunum um einhvern tíma, ofan á þá seinkun sem þegar er orðin.

Í því jarðgangnaplani sem unnið hefur verið eftir, var gert ráð fyrir að fara í Héðinsfjarðargöng jafnt og Fáskrúðsfjarðargöng og þegar því væri lokið átti að fara í Dýrafjarðagöng. Vegna „þenslu í þjóðfélaginu“ var Héðinsfjarðargöngum hinsvegar frestað og Dýrafjarðargöngum þar með líka. Fullvíst má telja að hefðu upphaflegu áætlanirnar gengið eftir, væru framkvæmdir við Dýrafjarðagöng að hefjast núna á næstu mánuðum. Óhætt er að fullyrða að engin framkvæmd á Vestfjörðum mun hafa meiri áhrif á þróun byggðar á svæðinu, en gerð heilsársvegar milli Dýrafjarðar og Vatnsfjarðar, og er um leið forsenda þess að Ísafjörður geti talist vera byggðarkjarni fyrir Vestfirði. Það er því orðið ljóst að frekari þróun á samvinnu milli sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og einstaklinga á milli þessara tveggja svæða á Vestfjörðum mun frestast um allnokkur ár til viðbótar.

Það að göng til Bolungarvíkur skuli vera komið á framkvæmdaáætlun eftir einungis eins árs baráttu, er kapituli útaf fyrir sig. Það er því greinilegt að bolvíkingar geta myndað öflugann þrýstihóp hafi þeir á því áhuga. Núna þegar þetta stóra takmark í samgöngumálum Bolvíkinga er að komast í höfn, vonast ég til, að þeir allir sem einn, fari að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum Vestfirðinga allra. Að þeir leggji sitt lóð á vogarskálarnar við að tryggja að samgöngur við suðursvæði Vestfjarða verði gerðar nútímalegar, á þann eina skynsama hátt sem er í boði.

Stækkun þjónustu og atvinnusvæðis á Vestfjörðum með heilsárstengingu milli Dýrafjarðar og Vatnsfjarðar er lykilatriði í byggðamálum á Vestfjörðum. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að allir Vestfirðingar vinni að því, af heilindum, að tryggja að af því verði hið fyrsta. Bolvíkingar eru boðnir velkomnir í þá baráttu.

Sigurður Hreinsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi