Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 16.02.2007 | 09:58Sættum við okkur við...

Það öryggisleysi sem okkur er boðið upp á í heilbrigðismálum hér á Ísafirði í dag! Svo er mál með vexti að ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi fyrir stuttu að fá nýtt barnabarn í heiminn. Ég fékk að vera viðstödd fæðingu þess, ég reyni að fylgja þeim inn í heiminn eins og mér er framast leyft. Hvað um það. Eftir fleiri klukkutíma hríðir og sársauka var ljóst að móðirin gæti ekki fætt barnið eðlilega. Ákvað þá yfirlæknirinn að framkvæma keisaraskurð, og var undirbúningur undir það hafin strax. Nema hvað, þegar allt var orðið klárt búið að tengja þessa elsku við allskonar leggi og leiðslur og átti að fara með hana niður á skurðstofu, þá var lyftan biluð.

Það var strax kallaður til viðgerðarmaður, en samt nokkuð ljóst að það var ekki hægt að bíða eftir því að hann kæmi og gerði við lyftuna, þó hann brygðist snarlega við. Úr varð að móðirin eftir þjáningar í fleiri klukkutíma eða um 15 tíma, varð að ganga niðu stigana til að komast á skurðstofuna. Hún er sem betur fer hörð af sér og algjör hetja. Hún var svo skorin upp og litla prinsessan mín leit þar dagsins ljós, mánuði fyrir tímann, en samt sem áður fullburða sem betur fer. Svo þegar átti að koma móðurinni aftur upp á sjúkrabeðinn og til barnsins sem beið eftir brjósti mömmu, þá var sama sagan lyftan ekki í gangi. Það þurfti að panta sjúkraflutningamenn til að bera hana upp á aðra hæð. Ég vil taka fram að starfsfólk og allir sem hlut áttu að máli, móðir og faðir sýndu þvílíkt æðruleysi og samstarfsvilja að það var aldeilis frábært.

En það er bara ekki nóg. Þessi fjandans lyfta er búin að vera til trafala í nokkra mánuði. Og það er búið að panta nýja lyftu, hanna umhverfi hennar og jafnvel afla fjármuna í hana. Það sem stendur á er að einhverjir bjúrokratar fyrir sunnan hafa ákveðið að hún eigi bara að ganga milli tveggja hæða en ekki þriggja. Þar mun hnífurinn standa í kúnni. Nú háttar svo til, að sjúkrabíll kemur inn í kjallara, þar er líka líkhúsið, skurðstofa á jarðhæð og sjúklingar á annarri. Getum við unað því hér að ef eitthvað kemur upp á að það sé ekki hægt að koma sjúklingum niður á skurðstofuna vegna þess að lyftan er biluð. Hverslags aðstæður er okkur boðið upp á. Hvaða skilaboð er verið að senda frá heilbrigðisyfirvöldum?

Að við skiptum ekki miklu máli, að það sé alveg sama hvað um okkur verður. Þetta gæti hafa verið verra, fyrirburinn gæti hafa þurft á skyndihjálp að halda. Nú eða bara einhver fái hjartaslag eða þurfi að koma til skyndihjálpar. Og lyftan er bara biluð og við megum bara bíða eftir því að viðgerðarmaðurinn komi og lagi hana, og svo gæti sjúklingurinn lokast inn í lyftunni milli hæða. Er líf okkar einskis virði?

Ég segi hingað og ekki lengra, nú er nóg komið. Þið þarna heilbrigðisyfirvöld, ráðherra og stjórar allskonar. Hér hafið þið bálreiða ömmu sem mun ekki stoppa við að gagnrýna ykkur fyrr en ný lyfta er komin í húsið, svo okkar fólk njóti þeirra mannréttinda að geta treyst á það besta sem býðst. Við eigum frábært starfsfólk, lækna hjúkrunarfólk og starfsmenn. En það dugir bara ekki ef aðrir hlutir eru ekki í lagi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar móðirin var flutt á milli hæða.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi