Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir | 15.02.2007 | 11:53Orð standa í vegamálum

Fyrir þá sem barist hafa fyrir bættum samgöngum á Vestfjörðum var einkar ánægjulegt að hlýða á samgönguráðherra kynna tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun á blaðamannafundi á Ísafirði í byrjun vikunnar. Þar tilkynnti ráðherra m.a. þá ákvörðun að ráðast hið fyrsta í gerð jarðganga milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur um svokallaða Skarfaskersleið og í beinu framhaldi að hefjast handa við jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Bundið slitlag innan tveggja ára

Þessar ákvarðanir eru mikið fagnaðarefni öllum þeim sem láta sig samgöngumál varða á norðanverðum Vestfjörðum. Aðeins nokkrir dagar eru liðnir síðan verktakar hófu framkvæmdir við þverun Mjóafjarðar og Reykjafjarðar við Ísafjarðardjúp sem er stærsta einstaka framkvæmd í vegamálum á Vestfjörðum frá því að Vestfjarðargöngin voru tekin í notkun. Þessu til viðbótar er aðeins dagaspursmál hvenær vegur um Arnkötludal verður boðinn út. Við sjáum því loks fyrir endann á því að geta ekið á bundnu slitlagi frá Bolungarvík alla leið inn á þjóðveg 1 því gangi framkvæmdir að óskum verður það gerlegt fyrir árslok 2008. Samtals verður um 6 milljörðum króna varið til samgöngubóta á þessari leið á næstu þremur árum og er rík ástæða til að fagna því.

Forgangsraðað í samræmi við vilja heimamanna

Miklar framkvæmdir standa einnig fyrir dyrum á sunnanverðum Vestfjörðum á Vestfjarðavegi, milli Flókalundar og Bjarkalundar. Þótt ekki miði þar jafn hratt og við Ísafjarðardjúp er það engu að síður ánægjuefni að ákvörðun um leiðarval liggur fyrir og er þar farið að óskum flestra heimamanna um vegagerð og þveranir um Djúpafjörð, Gufufjörð og Þorskafjörð. Sú framkvæmd mun koma íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum í heilsársvegasamband og er það löngu tímabært. Að þessum framkvæmdum loknum verður ráðist í að tengja suður- og norðursvæði Vestfjarða með jarðgöngum, sem er að mínu mati bráðnauðsynleg framkvæmd og til þess fallin að efla byggð á Vestfjörðum með Ísafjörð sem þjónustukjarna.

Það er vert að halda því til haga að allar þessar framkvæmdir eru í megindráttum í samræmi við áherslur vestfirskra sveitarstjórnarmanna í samgöngumálum fjórðungsins, en allt frá 1997 hafa sveitarfélögin staðið saman um forgangsröðun framkvæmda í samgöngustefnu Fjórðungsþings. Mörg þeirra verkefna sem þar eru tíunduð eru nú að verða að veruleika og sýnir það í reynd hve miklu góð samstaða sveitarfélaganna getur komið til leiðar.

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar

Það er kannski ekki að undra þótt stjórnarandstæðingar, jafnt innan þings sem utan, bregðist við þessum góða gangi í fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar. Þeir finna metnaðarfullri samgönguáætluninni flest til foráttu og reyna að koma því inn hjá almenningi að allt séu þetta orðin tóm. Talað er um svikin loforð, frestun framkvæmda og því haldið fram að ekkert samráð sé haft um áherslur. Undir þetta get ég ekki tekið. Fyrirætlanir stjórnvalda hafa staðist í öllum megindráttum, þótt alltaf megi rökræða um framkvæmdahraðann, og samgönguyfirvöld hafa á síðustu árum haft gott samráð við heimamenn um forgangsröðun framkvæmda. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar eru kannski skiljanleg í ljósi þess að kosningar eru framundan og ein umfangsmesta samgönguáætlun til þessa hefur litið dagsins ljós undir forystu samgönguráðherra. Það er því á brattann að sækja fyrir minnihlutaflokkana í þessum efnum þótt þeir reyni vafalaust að kasta ryki í augu kjósenda og gera samgönguáætlunina tortryggilega á alla lund.

Nýtum tækifærin sem skapast með bættum samgöngum

Ég fyrir mitt leyti lýsi yfir mikilli ánægju með framkomna áætlun og fullyrði að margir eru sama sinnis. Auðvitað getum við alveg eytt tíma og kröftum í að velta því fyrir okkur hversu miklu fyrr allar þessar framkvæmdir hefðu átt að verða að veruleika en í mínum huga þjónar það litlum tilgangi. Það skiptir öllu að horfa fram á veginn og skoða hvernig við nýtum sem best þau tækifæri sem skapast með bættum samgöngum. Á sameiginlegum vettvangi vestfirskra sveitarstjórnarmanna, Fjórðungsþingi, er brátt tímabært að leggja grunninn að nýrri stefnumótun í samgöngumálum fjórðungsins og bæta nýjum verkefnum inn á forgangslistann í vegamálum.

Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi