Grein

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.

Soffía Vagnsdóttir | 13.02.2007 | 09:42Að loknu íbúaþingi í Bolungarvík

Þá er íbúaþinginu í Bolungarvík lokið. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með frábæra þátttöku Bolvíkinga í þinginu og ekki síst var gleðilegt að fá tvo bæjarfulltrúa úr höfuðstað Vestfjarða til þátttöku að ekki sé talað um ráðherrann okkar og Bolvíkinginn Einar Kristinn Guðfinnsson og bolvíska þingmanninn Kristinn H. Gunnarsson. Um 130 manns komu að því með virkum hætti að móta framtíð Bolungarvíkur. Vinnulagið var fjölbreytt og það mátti sjá áhugasama hópa grúfa sig yfir landakort, götukort, skrifa hugmyndir sínar á litla minnismiða sem límdir voru upp með skipulögðum hætti og hver sköpunin af annarri fæddist átakalaust.

Tíminn leið hratt og fólk hafði ótrúlega þrautseigju til að sitja og taka þátt – líklega vegna þess að því þótti vinnan skemmtileg og áhugaverð. Aldurshópurinn var afar breiður. Áhugasamir unglingar komu upp úr hádeginu og tóku virkan þátt í vinnunni. Eldri borgarar voru mjög margir og þrátt fyrir að þrufa að bregða sér á fund á Ísafjörð vegna sinna málefna á landsvísu, komu þeir sínum skilaboðum vel áleiðis og komu aftur að lokinni kaupstaðarferð. Grunnskólanemendur nánast hlupu út úr rútunni og beint í íþróttahúsið til að kynna hugmyndir sem þeir höfðu unnið fyrr í vikunni, - en þeir voru að koma úr skemmtiferð til Hólmavíkur. Veggi íþróttahússins voru prýddir myndum og hugmyndum annarra nemenda skólans um framtíð Bolungarvíkur og var flóra hugmynda þar ótrúlega fjölbreytt.

Ég vil fá að þakka öllum þeim Bolvíkingum sem komu og tóku þátt í þessu skapandi verkefni, - að taka þátt í að móta framtíðarsýn fyrir samfélag, byggð, atvinnu, lífsgildi og fleira fyrir bæinn okkar. Ekki síst vil ég þakka þeim heimamönnum sem tóku þátt í undirbúningi við umgjörð í Íþróttahúsinu, stýrihópnum, bæjarráði og bæjarstjóranum.

Næst er að snúa sér að því að vinna að þeim hugmyndum sem þarna komu fram. Fyrsta samantekt mun koma frá fyrirtækinu ALTA eftir 2 – 3 vikur og þá reynum við sem sitjum í bæjarstjórn að byrja að forgangsraða verkefnum. Reynum auðvitað að koma þeim verkefnum fljótt af stað sem kosta ekki mikið en geta haft skemmtileg áhrif. Síðan auðvitað að reyna að hefja undirbúning hinna stærri verkefna sem þátttakendur lögðu til.

Það verður því að segjast eins og er að ef einhverjar þeirra hugmynda sem þarna komu fram, - ekki síst úr hópnum sem kallaður var „villtustu draumarnir“ þá er engu að kvíða hér, því þá munu verða biðraðir ferðamanna allsstaðar að úr heiminum til að skoða það sem fyrir augu ber. Hugmyndir barna og fullorðinna birtust í hlutum eins og stjörnukíkishúsi á Skálavíkurheiði, 30 metra hátt kórhús í líki Þuríðar Sundafyllis landsnámskonu þar sem söngmenn syngja undir pilsinu, vatnsorgel eftir endilöngum sandinum, kláfur fram af Bolafjalli og margt, margt fleira.

Ég þakka fyrir frábæran dag og bið áfram um gott samstarf við íbúana í að skapa bæinn okkar. Það er afar mikils virði. Aðeins þannig getur bæjarstjórn unnið í þágu íbúanna, viti hún hvert þeir vilja stefna. Ég hvet alla til að kynna sér niðurstöður þingsins þegar þær berast, en auðvitað verður reynt að koma þeirri kynningu sem víðast.Bolungarvík er góður bær og margar blikur á lofti sem lofa góðu um framtíðina. Fundur með samgönguráðherra í dag er einmitt ein af þeim blikum.

Soffía Vagnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi