Grein

Pálína Vagnsdóttir.
Pálína Vagnsdóttir.

Pálína Vagnsdóttir | 12.02.2007 | 17:23Dag skal að kveldi lofa... eða hvað

Samgönguáætlun 2007-2018 verður kynnt í húsnæði Vegagerðarinnar á Ísafirði kl. 15:00 í dag og þá kemur í ljós hvort barátta manna og kvenna hér og víðs vegar um land fyrir besta kostinum hafi haft erindi sem erfiði. Hvort kynntur verði besti kosturinn sem allir gera sér grein fyrir að eru göng úr Syðridal í Bolungarvík beint til Ísafjarðar hvort sem Tungudalur eða Múlaland yrði fyrir valinu.

Nú að kveldi 11. febrúar ligg ég uppí og horfi á leirplatta sem hangir í svefnherberginu hjá mér, þar stendur „Dag skal að kveldi lofa“. Þegar ég les hana get ég ekki annað en hugsað um hvort við verðum þeirrar gæfu aðnjótandi að meirihluti ríkisstjórnar Íslands hafi valið besta kostinn fyrir okkur í þessu máli. Hvort fórnað hafi verið nægilega miklum tíma í að rannsaka og meta samfélögin hér, hvort markaðsvirði hvers Vestfirðings hafi verið metið að verðleikum.

Frá því að ég hafði forystu um undirskriftalistann „Við viljum göng“ í febrúar 2005 hefur mikið verið ritað og rætt varðandi göng milli þéttbýliskjarna á norðanverðum-Vestfjörðum og margir lagt lóð á vogaskálarnar. Í formála undirskriftanna sem enn er í fullu gildi sagði að samgöngur væru forsenda eflingar atvinnulífs, menntunar og menningar á hverju landssvæði. Nú hugsa ég hvað verðum við hátt vegin og metin af stjórnvöldum Íslands og stend mig að því að biðja fyrir ríkisstjórninni og samgönguráðherra sem ég geri annars yfirleitt bara í messu á aðfangadagskvöld.

Það hefur verið svolítið sérstakt að hitta þingmenn sem ráðleggja það að ekki sé gott að vera að tjá sig of mikið á þessu stigi málsins þar sem gangamálið sé viðkvæmt. Það megi ekki styggja aðra landsmenn og gefa þeim færi á að ræða það að við kunnum ekki að meta það sem fyrir okkur er gert. Sennilega eykst mér aldrei krafturinn meir en þegar á móti blæs og vill því nota þessa klukkutíma sem til stefnu eru til að varpa þessum hugleiðingum fram. Það er aðeins eitt sem stýrir því. Veljum aðeins það besta fyrir komandi kynslóðir!

Pálína Vagnsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi