Grein

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir.
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir.

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir | 09.02.2007 | 09:28Í Bolungarvíkinni er björgulegt lífið

Svona hljóðar upphafsstefið í Bolungarvíkurbrag eftir Gísla Ólafsson úr Skagafirði sem ortur var árið 1916. Bragurinn er í 17 erindum en oftast eru bara sungin fyrstu tvö erindin. Allir Bolvíkingar geta tekið höndum saman og sungið þennan brag sem einn maður og þá skyggir ekkert á samheldni bæjarbúa, allir halda lagi og dilla sér með í góðum takti. Segja má að þessi söngur sé okkar sameiningartákn og þegar við kyrjum hann saman á góðri stundu, fyllumst við stolti yfir því að vera Bolvíkingar. Það er rok, rok ég ræ ekki, hefur síðan smokrað sér inn í þennan taktfasta texta og er sungið sem eitt sérstakt erindi á Þorrablótinu hér í bæ. Krækja menn þá höndum saman og róa sér í sætunum líkt og stefnan væri tekin á gjöful fiskimið, er stefið er sungið.

Það er rok, rok ég ræ ekki...hvað geri ég þá? er einmitt yfirskriftin á Íbúaþingi sem halda á 10. febrúar nk. í Bolungarvík. Þessi yfirskrift vekur vissulega upp spurningar um hvert stefnir í byggðarlaginu en líka hvaða leiðir við sjáum fyrir okkur í framtíðinni til að eflast og styrkjast. Ekki ætlum við að leggja árar í bát heldur róa á mið sóknar og tækifæra, því mikill dugur er í Bolvíkingum og samstaða ríkir um velferð bæjarins.

Á þessum íbúaþingi verður leitast við að fá hugmyndir bæjarbúa um þeirra framtíðarsýn. Metnaðarfull dagskrá hefur verið unnin þar sem áhersla er lögð á atvinnumál, umhverfi, útivist og yfirbragð sem og ásýnd byggðarinnar svo fátt eitt sé nefnt. Ég bind vonir við það að sem flestir mæti á þetta þing og móti sér skoðanir á samfélaginu sem við búum í og sköpum saman og komi með tillögur um hvernig best sé að feta veginn áfram í átt að enn björgulegra lífi í Bolungarvík.

Mættu á staðinn og taktu þátt, því þín skoðun skiptir máli.

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í stýrihópi um íbúaþing.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi