Grein

Gunnar Hallsson.
Gunnar Hallsson.

Gunnar Hallsson | 06.02.2007 | 13:44Róið eða ekki róið?

Nú stendur undirbúningur sem hæst fyrir íbúaþingið sem haldið verður hér í Bolungarvík 10. febrúar nk. Yfirskrift þingsins „það er rok, rok ég ræ ekki.... hvað geri ég þá?“ hefur ótvíræða bolvíska skírskotun. Í andbyr er nauðsyn aukins afls og það er margsannað að þegar við Bolvíkingar þurfum á því að halda þá stöndum við saman því við vitum að aðeins þannig vinnum við sigra.

Samfélag okkar hefur auðvitað tekið miklum breytingum undanfarin ár ekki síst á sviði atvinnumála og félagsmála sú staðreynd ætti að vera okkur hvatning til að nýta þau tækifæri sem í breytingunum kunna að liggja. Það er því brýnt að við nú, drögum í nös, og ráðum ráðum okkar um framtíð byggðarlagsins okkar. Íbúaþing Bolvíkinga 10. febrúar nk. er vettvangurinn til þess. Mikil vinna er lögð í að undirbúnigur og framkvæmd íbúaþingsins verði með sem besta móti, en það er m.a lykillinn að því að svona vettvangur fyrir hugmyndaflæði skili sem mestum árangri.

Með þátttöku sinni á íbúaþingi getur hin almenni bæjarbúi haft afgerandi áhrif á það hvernig hann vill sjá samfélag sitt þróast á komandi árum, því fleiri sem taka þátt og leggja þannig inn í púkkið hugmyndir sínar og skoðanir í hinum ýmsu málaflokkum því marktækari verður niðurstaða íbúaþingsins og auðveldar þannig hinum kjörnu fulltrúum að búa þá umgjörð um samfélagið sem íbúarnir vilja að verði. Íbúaþing með því sniði sem að er stefnt hafa verið haldin í allmörgum sveitarfélögum á undanförnum árum og ávallt gefist vel, ekki síst vegna þess að markmið verkefnisins er að virkja þann hóp íbúa sem ekki eru daglega að vasast í bæjarmálunum, og þeim sem forystuna skipa ætlað að halda sér til hlés, en sem þátttakendur er þeirra hlutverk fyrst og fremst að vera hlustendur.

Bolvíkingar eiga mörg tækifæri til að sækja fram á öllum sviðum samfélagsins og það er samfæring mín að með góðri þátttöku íbúanna á íbúaþinginu 10 febrúar nk. þar sem safnað verður saman vonum okkar og væntingum um byggðarlagið okkar í sem víðustum skilningi, þá fáist úr því niðurstaða að stefnumótun sem farsælt og árangursríkt verður að hafa að leiðarljósi.

Ágæti bæjarbúi, ég skora því á þig að leggja þitt að mörkum þannig að það verði myndarleg breiðfylking bæjarbúa sem leggur línuna um það hvert við viljum stefna í okkar ágæta samfélagi sem sannarlega þarf á samstöðu og samheldni bæjarbúa að halda til að vinna að sækja fram hvernig sem viðrar.

Gunnar Hallsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi