Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 10.04.2002 | 11:52Stærsta byggðaaðgerð Íslandssögunnar

Það voru afskaplega athyglisverðar fréttir sem bárust í gær af uppbyggingu atvinnulífs. Ríkisstjórnin óskar heimildar til handa fjármálaráðherra að ábyrgjast skuldabréf að upphæð 20 milljarða króna vegna uppbyggingar lyfjarannsóknarfyrirtækis DeCode. DeCode er eins og allir vita bandarískt fyrirtæki. Samkvæmt fréttum var lítið mál fyrir DeCode að byggja þessa starfsemi upp í Kaliforníu. Til þess hinsvegar að hægt væri að byggja upp þessa starfsemi, í Reykjavík vel að merkja, þurfti aðstoð ríkisins. Þrátt fyrir að þessi rekstur sé mjög áhættusamur virðast leiðtogar allra stjórnmálaflokkanna sammála um að taka þessa áhættu. Jú, hætta skal 20 milljörðum króna til þess að skapa 2-300 ný störf í Reykjavík. Störf í hátækniiðnaði sem ella yrðu staðsett annars staðar.
Þrátt fyrir orð fjármálaráðherra er ákvörðun þessi afskaplega fordæmisgefandi. Nefnilega að ríkið er tilbúið til þess að hætta miklum fjármunum til þess að verja byggð. Skapa ný störf til þess að tryggja betur byggð í landinu. Í þessu tilfelli Reykjavík. Ekki þarf að efast um að landsmenn allir munu sitja við sama borð er kemur að atvinnuuppbyggingu í framtíðinni.

Ekki skal gert lítið úr þeim stórkostlega árangri sem starfsemi DeCode hefur náð á Íslandi. Leggja ber hinsvegar áherslu á að kalla hlutina réttum nöfnum. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er auðvitað ekkert annað en stærsta aðgerð til stuðnings byggð á Íslandi hingað til. Í þessu tilfelli til stuðnings byggð í Reykjavík.

Þegar rætt er um eðlilega meðferð mála gagnvart öðrum byggðum á Íslandi er það kallað allt frá kjördæmapoti til ríkisstyrktrar byggðastefnu. Sú umræða hlýtur að þagna núna. Það er besta fréttin. Öll byggð er einhvers virði. Vonandi jafnmikils virði.

Halldór Jónsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi