Grein

Pálína Vagnsdóttir.
Pálína Vagnsdóttir.

Pálína Vagnsdóttir | 31.01.2007 | 10:23Hrós til handa unglingaráði KFÍ og Íslandssögu

Þegar ég sest til að rita þessar línur er ég og mín fjölskylda að standa upp frá kvöldverðarborðinu, enn með vatn í munninum með magafylli af einstaklega góðri ýsu. Gott er að geta sest niður og hrósað fyrir það sem vel er gert til eftirbreyttni og það vil ég gera nú. Sonur minn sem æfir körfubolta hjá Ungmannafélagi Bolungarvíkur fór ásamt systur sinni og föður til að taka þátt í foreldradegi á Suðureyri s.l. laugardag sem unglingaráð KFÍ skipulagði.

Miðinn sem kom heim til foreldra hljóðaði svona: „Unglingaráð KFÍ gengst fyrir foreldradegi laugardaginn 27. janúar n.k. þar sem krakkarnir okkar munu etja kappi hvort við annað, síðan munu þjálfararnir skipta krökkunum í nokkur jöfn lið sem síðan keppa innbyrgðis. Eftir keppnina verður síðan boðið upp á pizzu og gos á veitingastaðnum Talismann eða á einhverjum öðrum stað fer eftir fjölda þátttakenda. Áður en farið verður í Pizzuna er fólk hvatt til að fara í sund með krökkunum. Verð fyrir hvern einstakling verður kr. 900,-. Innifalið í því er Pizza og sundferð ásamt kaffisopa sem að verður á boðstólnum fyrir fullorðna fólkið. Við hvetjum foreldra til þess að sýna krökkunum stuðning og mæta á svæðið og sjá hvað þau eru að gera“.

Því miður átti ég ekki kost á að taka þátt í þessum vel skipulagða degi en naut afrakstursins með fjölskyldunni nú í kvöldmatnum. Fyrir utan glæsileg verðlaun sem ýmiss fyrirtæki styrktu þennan skemmtilega dag með vakti eitt sérstaka athygli mína sem ég vil nefna hér þó að ekki sé ég með því að lasta annað. Þannig var að allir þátttakendur voru leystir út með fiskikassa frá Íslandssögu á Suðureyri. Það get ég sagt með sanni að fiskurinn bráðnaði upp í manni, smakkaðist eins og besti fiskur sem faðir minn kom með beint af sjónum hér áður fyrr og það var ekki síst gaman að taka á móti börnunum sem stolt færðu með þessari góðu gjöf björg í bú. Það verð ég að segja að þetta finnst mér einstaklega gott framtak og vil þakka KFÍ, þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem lögðu hönd á plóginn til að þessi dagur tækist sem best og ekki síst Íslandssögu fyrir yndislegan ferskan fisk sem dugir okkur í margar máltíðir til viðbótar. Hafið hjartans þökk fyrir.

Hlý kveðja,
Pálína Vagnsdóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi