Grein

Haukur S. Magnússon.
Haukur S. Magnússon.

Haukur S. Magnússon | 30.01.2007 | 09:29Orð í belg í umræðuna um flutning unglingastigsins

Það eru allir alltaf að skrifa eitthvað um áformaðan flutning unglingastiganna á Flateyri og Suðureyri til Ísafjarðar. Mjög margir eru reiðir, þeím er beinlínis heitt í hamsi. Ég hef tekið eftir því. Það er líka alveg leiðinlegt að missa alla unglingana úr bænum hálfan daginn (reyndar þætti mér það alveg ágætt. Unglingar eru oft háværir og dónalegir í sjoppum). En ég held að það sé samt alveg fínt að færa unglingastigið gegnum göngin og yfir á Ísafjörð, ég tala nú ekki um ef það má spara einhverjar krónur með því. Ég var nefnilega að lesa allar þessar greinar þar sem allir eru brjálaðir og datt sísona í hug; „Ef ég væri unglingur á Flateyri eða Suðureyri, þá myndi ég bókað vilja hanga með eins mörgum öðrum unglingum og ég gæti!“

Og ég held að það sé alveg málið, krakkar hafa yfirleitt mjög gaman af því að hanga með öðrum krökkum. Þegar ég var unglingur í Grunnskólanum á Ísafirði á sínum tíma, þá þótti mér mjög gaman að byrja í gaggó, ekki síst af því að þá bættust í hópinn krakkar úr skólanum í Hnífsdal sem mér fannst mjög fínir. Guðjón í Hnífsdal og Gunnar Pétur, til dæmis. Og það búa alveg margir ennþá í Hnífsdal, þó ég sé viss um að fólk hafi verið alveg jafn pirrað þegar unglingastigið þar var lagt niður.

Þar að auki: ef þið hafið svona mikinn áhuga á því að missa börnin ykkar ekki úr bænum, hugsið þá aðeins lengra. Það er nokkuð ljóst að þeir krakkar sem mynda sterk tengsl við aðra krakka úr bæjarfélaginu, við bekkinn sinn, o.s.frv., eru líklegri til þess að sækja menntaskóla með þeim, þ.e.a.s. stunda nám við Menntaskólann á Ísafirði frekar en að hlaupa í MH (eins og einhverjir árgangar Flateyringa gerðu t.d. hér um árið).

Svo kæmu þeir alveg heim á kvöldin og svona.

En, ég meina, þið ráðið. Ég á engin börn.

Haukur S. Magnússon. Höfundur var einu sinni unglingur í smábæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi