Grein

Jóna Benediktsdóttir.
Jóna Benediktsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir | 29.01.2007 | 17:00Breytingar á skólakerfinu í Ísafjarðarbæ

Nokkuð hefur verið skrifað að undanförnu um þá hugmynd að flytja unglingstig grunnskólanna á Flateyri og Suðureyri í Grunnskólann á Ísafirði, engan skyldi undra það, enda um hápólitíska aðgerð að ræða sem hefur mikil áhrif á búsetuskilyrði á svæðinu. Þessi hugmynd kom fram sem sparnaðartillaga frá sviðsstjóra. Ef bæjarstjórn felur sviðsstjórum að finna sparnaðarleiðir eiga þeir auðvitað að gera það. Það er svo bæjarstjórnar að ákveða hvaða hugmyndir fara til frekari umræðu.

Ábyrgð á þessari umræðu er því ekki á forræði starfsmanna Ísafjarðarbæjar heldur hins pólitíska meirihluta Framsóknar - og Sjálfstæðisflokks. Það hefur frá upphafi þessarar umræðu verið alveg á hreinu að við í minnihlutanum myndum ekki styðja þessa hugmynd, við lýstum því yfir fyrir kosningar í vor að við teljum mikilvægt að styðja og styrkja alla skólana á svæðinu og við það stöndum við. Á fundum bæjarstjórnar höfum við í Í-listanum ítrekað varað við þessari hugmynd.

Meirihlutinn með bæjarstjórann, oddvita sjálfstæðismanna, í brjósti fylkingar, vill hins vegar fara í þessa umræðu og telur rétt að skoða málið. Þeir sem þar fara fyrir vilja samt sem áður ekki eigna sér tillöguna og telja betra að starfsmenn bæjarins taki þann skell sem hlýst af því að ræða svo róttækar breytingar á högum bæjarbúa. Þetta eru að mínu mati ákaflega slæleg vinnubrögð, auðvitað eru það pólitískir fulltrúar sem eiga að bera ábyrgð á þessari umræðu. Það er formaður fræðslunefndar og oddviti meirihlutans sem ákveður að þessi hugmynd fari til umræðu. Ef menn eru ákveðnir í að hugmynd sé ekki nothæf er tilgangslaust að ræða hana svo það hlýtur að vera ljóst að bæjarstjórinn okkar telur þessa hugmynd vel nothæfa og þess virði að eyða mikill orku í að koma henni í framkvæmd.

Reiðir bæjarbúar ættu því að beina spjótum sínum að meirihluta bæjarstjórnar, þar liggur ábyrgðin. Það er skiljanlegt að menn geti átt í erfiðleikum með það, sérstaklega þegar um er að ræða einstaklinga sem voru í framboði fyrir þessa flokka í vor en hugnast greinilega ekki stefna þeirra þegar öll spil eru komin upp á borðið.

Jóna Benediktsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi