Grein

Inga Bára Þórðardóttir.
Inga Bára Þórðardóttir.

Inga Bára Þórðardóttir | 24.01.2007 | 14:55Nokkur orð um störf og trúverðugleika Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar

Guðmundur R. Björgvinsson skrifar harðorða grein á BB vefinn þann 23.01.07 um störf og trúverðugleika Skóla-og fjölskylduskrifstofu og langar mig sem starfsmann á þeirri stofnun að segja örfá orð við þennan herramann. Í fyrsta lagi ber greinin hans með sér skort á að afla sér þekkingar um það sem skrifa á um. Það verður eiginlega að teljast lágmarkskurteisi að kynna sér málin áður en lagst er í svona skriftir. Í öðru lagi er greinin skrifuð í gífuryrðastíl og til þess samin að grafa undan trausti þeirra sem þurfa að leita til Skóla-og fjölskylduskrifstofu til að fá aðstoð við að leysa sín mál.

Ég ætla að láta grunnskólafulltrúa og yfirmann minn um að bera af sér ósannindin um sín störf ef þær þá á annað borð nenna að svara svona skrifum. Ég vil einungis benda á að hér á skrifstofunni starfar fleira fólk en þessar tvær valinkunnu konur og þó ég geti ekki séð neina ástæðu til þess að svona sé skrifað um nokkurn mann finnst mér sérlega hart að sitja undir svona ræðu þegar fólk hefur t.d. ekki gert Önfirðingum og Súgfirðingum verri hluti en greiða þeim húsaleigubætur eins og hann Bergur okkar eða séð um húshjálp fyrir aldraða eða félagslega aðstoð við þá sem minna mega sína, nú eða verið skólasálfræðingur í 10 ár.

Nú er ég ekki að segja að Guðmundur megi ekki hafa sínar skoðanir á skólamálum, þetta er jú lýðræðisríki en um greinina hans og hvernig hún er skrifuð dettur mér einungis í hug hvort þarna fljóti illar tungur á Hafinu bak við Bergið þegar greinarhöfundur settist niður og að lokum bútur úr gömlu dægurlagi með Halla og Ladda: Hæ og skammastu þín svo.

Inga Bára Þórðardóttir, starfsmaður Skóla-og fjölskylduskrifstofu.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi