Grein

Guðmundur R. Björgvinsson.
Guðmundur R. Björgvinsson.

Guðmundur R. Björgvinsson | 23.01.2007 | 15:19Opið bréf til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar

Af marg gefnu tilefni er mál til komið að segja stopp nú! Umræðan að undanförnu um flutning unglingastigs grunnskólanna á Flateyri og Suðureyri til grunnskólans á Ísafirði, er nú algerlega komin úr böndunum og allt traust og trúnaður til Skóla- og fjölskylduskrifstofu er kominn út í hafsauga, a.m.k. það er snýr að foreldrum og nemendum skólanna á Flateyri og Suðureyri. Marg sinnis hafa á undanförnum árum komið fram slíkar tillögur og þær verið ræddar og þeim ávallt verið hafnað jafnharðan við skoðun.

Yfirmaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu lagði fram tillögu 22. nóv sl, um þessi mál, nú í búningi sparnaðar, illa ígrundaðar tillögur. Fjölmennur fundur var haldinn á Flateyri 5. des sl., þar sem þessu var algerlega hafnað. Súgfirðingar tóku í sama streng með söfnun undirskrifta gegn framkominni tillögu. Þrátt fyrir andmæli okkar rata þessi áform inn í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, þá væntanlega hefur fræðslunefnd með bæjarstjórann í broddi fylkingar lagt blessun sína yfir tillöguna. Allavega hafa ekki borist viðbrögð við andmælum okkar frá bæjarstjórninni. Með þessum verknaði er gerð atlaga að okkur sem búum á Flateyri og Suðureyri, atlaga að börnunum okkar og skólastarfinu. Þeim sem leggja slíkt til er engan veginn ljóst um afleiðingarnar, mætti halda!

Hvern langar að búa um sig og sína þar sem skólamálum væri þannig fyrir komið. Við búum á þessum stöðum vegna kostanna við að hafa börnin nærri okkur, nærvera fjölskyldu, skóla og atvinnu skiptir fjölskylduna mestu máli á mótunarárum unglinganna. Röksemdir hafa komið fram um að fag og félagslega séu börnin afskipt. Við foreldrarnir treystum okkur algerlega til þess að láta frá okkur heyra ef eitthvað vantar á í skólastarfinu. Og hvers á starfsfólk skólanna að gjalda, að sitja undir þessari umræðu, það auðveldar þeim ekki starfið, þeir hafa verið sakaðir um að vera leiðinlegir, hugsandi eingöngu um eigin hag, en ekki barnanna. Mega þeir ekki hafa skoðanir í því samfélagi sem þeir búa í, og þeir eiga líka börn í skólunum.

Skóla- og fjölskylduskrifstofan hefur nú slegið á frest að kynna fyrir okkur þessa stefnu sína, en jafnframt sagt að þetta standi enn til, þrátt fyrir nánast algera samstöðu Flateyringa og Súgfirðinga að hafna þessum tillögum um flutning unglingastigsins. Ástæða þess að þessu hefur verið hafnað, er fyrst og fremst sú að við gerum okkur fulla grein fyrir afleiðingunum, og komum ekki til með að láta slíkt yfir okkur ganga. Sé vilji bæjaryfirvalda og Skóla- og fjölskylduskrifstofu að halda þessu til streitu, þá höfum við íbúar Flateyrar og Suðureyrar ekki sagt síðasta orðið.

Sprengjuárás!

Grunnskólafulltrúi átti nýverið fund með foreldraráði Grunnskóla Önundarfjarðar og sagði þar að framkomin tillaga væri til að varpa „SPRENGJU“ og fá fram umræðu um flutning unglingastigsins, eins og það væri ekki ljóst um afstöðu okkar til málsins. Vilji yfirmaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu og grunnskólafulltrúi varpa að okkur og börnunum okkar „sprengju“ þá verður því svarað með viðeigandi vopnum.

Stopp nú!

Við höfum haldið í þá veiku trú að undanförnu að yfirmaður Skóla og Fjölskylduskrifstofu ásamt Grunnskólafulltrúa eigi að standa vörð um hagsmuni barnanna, þá höfum við tapað þeirri trú. Traust og trúnaður við yfirmenn skólamála er farinn út í hafsauga.Viðkomandi ættu að fara að gera sér ljóst að tími er til að finna sér annað og meira viðeigandi starf, við hæfi, þar sem sprengjur eru brúkaðar.

Yfirmaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu hefur brugðist okkur á Flateyri áður, nærtækast er frá í haust, þegar „kennitölulausu“ börnin voru rekin heim úr skólanum. Það er hlutverk yfirmannsins að gæta hagsmuna barnanna gagnvart foreldrum og skóla, þá hefði verið nær að leysa vandann með því að aðstoða foreldrana og koma kennitölum í lag þegjandi og hljóðalaust. Nei, heldur skyldum við gerð að athlægi hjá alþjóð.

Það er nú svo að börnunum í skólanum stafaði ekki hætta af þeim kennitölulausu, en börnin bera öll fyrir vikið sár á sálinni, þau kennitölulausu fyrir að hafa verið rekin heim úr skólanum, nýkomin í nýtt samfélag fjarri heimahögum og þau sem fyrir voru fyrir að verða vitni að slíkri framkomu, þess sem á að gæta hags þeirra. Og fleira mætti telja til. Þeir sem eiga að gæta hagsmuna barnanna eiga ekki sífelt að halda á lofti umræðu um að leggja af hluta skólanns þeirra og umturna lífsmynstri barnanna í efri bekkjunum, og hvað þá um hag hinna yngri sem þá myndu missa fyrirmyndir sínar?

Staðreyndin er sú að þessi umræða hefur valdið börnunum skaða, skapað óvissu og ótta, enda fóru börnin sjálf að safna undirskriftum til að mótmæla því að verða flutt milli skóla. Nei, Skóla og Fjölskylduskrifstofan á ekki að varpa „sprengjum“ á börnin okkar, nú er mál að linni þessum endurteknu árásum á samfélögin á Flateyri og Suðureyri. Ótal rök má til tína máli okkar til stuðnings og óþarfi að rekja það ýtarlega, svo augljóst sem það má vera, að hér viljum við vera í friði og ró. Bæjarstjórninni á ekki að líðast að beita þegna sína misrétti, í þessu máli né öðrum málum, né að valda íbúum hugarangri og miska.

Bæjarstjórnin á að gæta hags allra íbúanna og á ekki að skerða grunnþjónustu við íbúana. Sé vitlaust gefið,eins og bæjarfulltrúi sagði um daginn, þá á að skipta um „gjafarann“. Ef staða sveitarfélagsins er sú að vera ekki „rekstrarhæft“ þá mælir ríkisvaldið svo fyrir um, að leita beri sameiningar við annað ríkara, sem er tilbúið að taka við „súpunni“. Frá sameiningu sveitarfélaganna sem mynda Ísafjarðarbæ, hefur verið staðið með Flateyringum við uppbyggingu samfélagsins af hálfu bæjarstjórnar og við trúum því að svo verði áfram. Við trúum ekki að tekjustofnar sveitarfélaga séu náttúrulögmál, sem ekki fáist breytt, fyrr en allt er komið í kaldakol og flótti brostinn á og byggðirnar hrynji, nema það sé einlægur vilji landsfeðranna að svo fari.

Stopp nú!

Flateyri 23. janúar 2007,
Guðmundur R. Björgvinsson, formaður Íbúasamtaka Önundarfjarðar.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi