Grein

Svanhildur Þórðardóttir.
Svanhildur Þórðardóttir.

Svanhildur Þórðardóttir | 19.01.2007 | 19:14Hálfkvíði fyrir sumrinu!

Flestum hlýtur að finnast þetta einkennilega til orða tekið, en eftir að hafa lesið ágætan pistil Rúnars Óla um ferðamennsku og „gæði“ ferðamanna langar mig til að koma inn á annan ferðamáta sem er skemmtiferðaskipin sem fjölga komum sínum hingað til Ísafjarðar með hverju sumrinu sem líður. Það fer hrollur um mig og sjálfsagt fleiri verslunarmenn, að hugsa til þessara 30,000, já þrjátíu þúsund ferðamanna sem við eigum von á hingað með skemmtiferðaskipum í sumar. Ekki það að ég hafi neitt á móti þessu blessaða fólki, heldur er það tilgangsleysið sem maður finnur fyrir við að standa upp á endann í marga klukkutíma og kinka kolli, og geta ekki liðsinnt þeim neitt: Því þeir kaupa ekki neitt. Stundum er örtröðin svo mikil að viðskiftavinir geta vart komist inn í verslanirnar.

Það er í besta falli að það þurfi að svara spurningum þeirra, eins og til dæmis, hvar er apótekið, næsta almenningssalerni eða eitthvað í álíka dúr. Meira að segja í Rammagerð Ísafjarðar sem er ferðamanna og listmunaverslun er sömu sögu að segja. Það eina sem þetta fólk vill eru ódýrir minjagripir, og þeir eru einfaldlega ekki framleiddir á Ísafirði. Ég sting uppá því við ferðamálasamtökin og Ísafjarðarbæ hvort ekki væri snjallt að hannaðir og framleiddir væru bolir og kannski eitthvað fleira sem gæti verið minnjagripur, ódýr en góður til síns brúks. Síðan gætu þær verslanir sem kærðu sig um haft þetta til sölu. Mér datt nú svona í hug að varpa þessu fram, það er aldrei að vita nema einhverjar fleiri hugmyndir komi fram í framhaldinu.

Svanhildur Þórðardóttir, búðarkona.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi