Grein

Soffía Hauksdóttir.
Soffía Hauksdóttir.

Soffía Hauksdóttir | 19.01.2007 | 13:10Þorrablótið í Bolungarvík

Umræðan um þorrablót hér í Bolungarvík þar sem giftar konur og konur í sambúð bjóða bændum sínum til blóts og sjá jafnframt um alla skipulagningu og framkvæmd er að mínu mati komin að stórum hluta á mjög miklar villigötur. Þær mjög svo neikvæðu raddir sem heyrast virðast ekki hafa ígrundað vel málatilbúnað sinn. Bent skal á að nefndirnar starfa sjálfstætt, eingöngu skipaðar af fyrri nefndum til eins árs í senn og tilheyra engum félagasamtökum.

Undirrituð var formaður þorrablótsnefndar fyrir árið 2006, þar var tekin málefnaleg umræða um hefðarreglur Þorrablóts í Bolungarvík og rætt um hvernig nefndin brygðist við erindum sem hugsanlega gætu borist varðandi þær. Það er í stuttu máli hægt að segja hversu mörg erindin voru, akkúrat engin. En út úr þessarri umræðu fórum við held ég allar fróðari og með nokkurri vissu um að aldrei yrði alger einhugur varðandi þær reglur sem gilda, hverjar svo sem þær væru. Hins vegar voru allar sammála að engin ein nefnd gæti tekið ákvörðun einhliða um gagngerar breytingar þar á, heldur yrði hreinlega að efna til opins fundar í bæjarfélaginu ef til stæði að taka slíkar ákvarðanir.

Mörgum spurningum var velt upp og tel ég að öllum sem um málið fjalla hollt að velta nokkrum þeirra fyrir sér: Mega fráskyldar konur koma? En þá þær sem aldrei hafa verið í sambúð? Hvað með karlmenn? Ef ekki, er þá ekki verið að mismuna kynjunum? Eiga karlar að sitja í þorrablótsnefnd? Er verið að setja trogfélaga fráskyldra í vandræði þ.e.a.s. að neyðast til að taka afstöðu með eða á móti öðru þeirra, þar sem samkomulagið er hugsanlega með verra móti og annað jafnvel komið með nýjan maka? Hverjum er þar greiði gerður? Hommar og lesbíur hvað með þau? Hvor þeirra aðila ætti að sitja í nefndinni? Hvers vegna halda einhleypir ekki bara eigið þorrablót? Af hverju mega ekki bara allir koma, sem til þess hafa aldur og geta mætt í viðeigandi fatnaði? Eða er þá verið að mismuna fólki eftir efnahag, upphlutur eða peysuföt kosta ekki undir 150 til 200 þúsund krónum? Hafa ellefu konur nefndarinnar hverju sinni stuðning allra íbúa Bolungarvíkur ef einhverju verður breytt? Ef breytingar verða koma þá fleiri? Eða fækkar jafnvel? Er þorrablótið kannski orðið að fornminjum best geymdum á safni?

Lesandi góður heldurðu að allir séu sammála þínum skoðunum á þessu máli? Megi Þorrinn verða þér og þínum gleðilegur.

Soffía Hauksdóttir.
Hlíðarvegi 14,
Bolungarvík.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi