Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 05.04.2002 | 13:22Göngum vel um bæinn okkar!

Ágætu menntskælingar og aðrir Ísfirðingar! Mig langar að biðja ykkur um að hafa í huga nú þegar frost er að fara úr jörðu og gróður er viðkvæmur, að reyna að ganga ekki á gróðrinum. Ég tala til menntskælinga vegna þess að ég horfi stundum upp á ungt fólk ganga þvert yfir grasið á nýja hringtorginu. Mér er svolítið sárt um þetta svæði vegna þess að mikil vinna og peningar hafa verið lagðir í að gera svæðið fallegt.
Það er sorglegt að vita til þess að kannski verður ljót göngubraut þvert yfir eyjuna. Hönnun um hugmynd að baki torginu er skemmtileg og það er með fallegri umferðarmannvirkjum hér á landi. Eins langar mig að biðja fólk um að vaða ekki beint yfir runna og gróðursvæði. Við erum alltaf að stytta okkur leið og um leið skemmum við útlit bæjarins okkar. Þess vegna langar mig til að fá ykkur í lið með mér og taka frekar smá krók og ganga eftir göngubrautum.

Mig langar líka til að biðja ykkur um að hjálpa mér að veita öðrum aðhald t.d. með því að tala við viðkomandi, sjáið þið hann vaða yfir gróður. Við getum litið á það sem líkamsrækt að fara aðeins lengri leið og fylgja gangbrautum. Bærinn okkar er alltaf að verða fallegri og fallegri, hann vekur eftirtekt fólks sem kemur í heimsókn og margir hafa orð á því hve snyrtilegur hann er. Frá náttúrunnar hendi er hann mjög flottur. Tökum höndum saman og setjum okkur það markmið að ganga vel um bæinn, okkur öllum til gleði og yndisauka.

Með vorkveðjum,
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, garðyrkjustjóri.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi