Grein

Rúnar Óli Karlsson.
Rúnar Óli Karlsson.

Rúnar Óli Karlsson | 18.01.2007 | 13:19Hornstrandafriðlandið

Mér finnst það gott framtak hjá Bæjarins besta að hefja umræðu um Hornstrandafriðlandið þegar ferðaþjónar og landeigendur á svæðinu eru að koma sér í gírinn fyrir sumarið og ráðstefna um skipulagsmál á Hornströndum að nálgast. Þar má greinilega búast við líflegum umræðum en ég óttast að þar verði oft talað af meira kappi en forsjá. Eins og margir hafa áttað sig á, þá eru Hornstrandir og nálæg svæði mjög merkileg fyrir margra hluta sakir. Þar er enginn heilsársbyggð, tvö af þremur stærstu fuglabjörgum við Atlantshaf eru sitthvoru megin í Hornvíkinni (Látrabjarg er síðan stærst), engin búfénaður hefur verið á svæðinu í minnst 50 ár og gróðurfar því mjög fjölskrúðugt, sagan streymir úr hverri þúfu og síðast en ekki síst eru engar vegasamgöngur á svæðinu... ennþá.

Mikil umskipti hafa orðið í umhverfisvernd á síðustu árum. Sú kynslóð sem nú er komin á efri ár, ólst upp við að aukning í magni væri grunnforsenda fyrir auknum tekjum. Skal engan undra þennan hugsunarhátt hjá kappsömum Íslendingum, því sannarlega er þetta auðveldasta leiðin oft og tíðum. „Náum bara í meira!“ Bátar og togarar komu drekkhlaðnir að bryggju og stundum var magnið svo mikið að fiskurinn fór jafnvel beint í gúanó því frystihúsin önnuðu ekki öllu hráefninu. Í kjölfar kreppu í fiskveiðum og aukinnar markaðsvitundar brást sjávarútvegurinn m.a. við með auknum gæðum, betri nýtingu og betri markaðstengingum sem leiddu til aukinnar framlegðar. Afar skynsöm og eðlileg leið þegar auðlindin, fiskurinn, ferðamaðurinn og landið er takmörkuð auðlind.

Kannski má segja að svipuð saga sé að eiga sér stað í ferðaþjónustu. Sá ágæti maður Konráð Eggertsson, hvalfangari og skíðamaður er einn fulltrúi þeirra sem telur að hausafjöldinn sé allt sem þarf til að ferðaþjónustan blómstri og að vegir séu eina leiðin til að auka vegsemd ferðaþjónustu á Hornströndum. Fleiri falla í gildruna „magn frekar en gæði“ á tyllidögum eins og stjórnmálamenn, yfirmenn ferðamála á Íslandi og fleiri. En ferðamaður er ekki það sama og ferðamaður. Verðmæti þeirra er misjafnt. Sem dæmi get ég nefnt að verið er að skipuleggja ferð fyrir ríka útlendinga sem vilja fara á Hornstrandir í sumar. Þeir ætla að fá flutning á svæðið með flottum farkosti, njóta náttúrunnar í sinni hreinustu mynd og borða kræsingar útbúnar í Perlunni! Dæmi uppá fleiri milljónir. Maður veltir fyrir sér hvað þyrfti marga jeppaferðalanga til að skapa sömu tekjur og þessir örfáu ríku ferðamenn.

Reyndar er varla svaravert að leggja orði í belg varðandi vegalagningarhugmyndir í óbyggðum Vestfjarða. En það er kannski best að reyna að kveða þetta í kútinn í fæðingu.

Á Hornströndum á að mínu mati aldrei að byggja vegi af neinu tagi. Það sjá allir sem hugsa málið til enda. Eins og Gylfi Ólafsson hjá Vesturferðum, benti á í frétt hér á vefnum, skila ferðamenn á bílum oft litlum sem engum tekjum. Ekki þurfa þeir að nýta sér þjónustu farþegabáta til að koma sér á svæðið, hæpið er að þeir kaupi sér mat því auðvelt er að taka hann með sér og eins er hættan á „umferðarslysum“ mikil. Þar á ég við utanvega akstur eins og þúsund dæmi á hálendinu sanna.

Eins virðast menn gleyma því í hita leiksins að á Vestfjörðum eru mörg svæði með vegtengingu sem svipa til Hornstranda. Hér mætti nefna Látrabjarg, Skálavík, Ingjaldssand, Ketildali í Arnarfirði og Bolafjall. Það ætti miklu frekar að leggja áherslu á bættar vegasamgöngur á þessa staði. Þá geta þeir sem vilja njóta náttúrunnar út um bílgluggann gert það en hinir sem vilja gera hið sama fótgangandi eða með bátum, gert hið sama. Hvort tveggja á rétt á sér.

Margar þjóðir eru búnar að byggja afkomu sína á ferðaþjónustu í mun lengri tíma en við íslendingar. Til dæmis hefur nýsjálendingum tekist að byggja upp eitt stærsta ferðamannaland heims og er aðal áherslan á sjálfbæra ferðaþjónustu og ævintýraferðamennsku. Þjóðgarðar eru á hverju horni (fjórtán þjóðgarðar), menntaðir leiðsögumenn leiða ferðaþyrsta útlendinga í allan sannleikann um töfra ósnortinna fjalla, jökla, skóga, jarðhitasvæða og annara náttúrufyrirbæra landsins. Þar er það ekki magnið sem gildir, heldur gæðin, náttúran og oft takmarkanir á fjölda ferðamanna á ákveðnum svæðum og ákveðnum tímum. Þeir hafa meira að segja gengið svo langt að koma á einstefnu á nokkrum gönguleiðum til að minnka hættuna á að rekast á aðra ferðalanga. Þeirra framtíðarsýn er svo sannarlega að skila sér og blómstrar ferðaþjónusta á Nýja Sjálandi meira en nokkru sinni fyrr.

Ég legg til að lesendur skoði vefsíðuna www.newzealand.com.

Verðmæti Hornstranda og nálægra svæða á bara eftir að aukast ef okkur tekst að varðveita þær í sinni hreinustu mynd um ókomna tíð. Þar liggja hin sönnu verðmæti fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Mín framtíðarsýn er gæðaþjónusta, vel uppbyggðar þjónustumiðstöðvar á ákveðnum stöðum, leiðsögn frá heimamönnum í lengri og styttri ferðum og öflugt net bátsferða, bæði sem samgöngur við svæðið og ýmiskonar útsýnis- og náttúruskoðunarferðir. Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa oft ályktað um að ferðaþjónusta á Vestfjörðum eigi í framtíðinni að snúast um umhverfisvæna og vistvæna ferðaþjónustu, þar sem unnið er í sátt við heimamenn, í sátt við náttúruna og með fjárhagslegan ávinning að leiðarljósi fyrir ferðaþjóna og Vestfirði í heild. Nánast öll ferðaþjónusta í heiminum er að snúast í þessa átt. Ekki þarf að skoða málið lengi til að komast að þeirri niðurstöðu. Núna snýst allt um gæða- og umhverfisvottanir svæða og ferðaþjónustufyrirtækja og mikilvægi þess að skipta við heimamenn til að skilja tekjurnar eftir á réttum stöðum.

Að mínu mati á að skoða alvarlega að gera friðlandið að þjóðgarði og jafnvel stækka það. Eins og leiðsögumaðurinn Baldvin Kristjánsson benti á hér á vefnum, þekkja erlendir ferðamenn ekki orðið „friðland“ og margir leggja áherslu á að skoða alþjóðlega viðurkennda þjóðgarða og svæði á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta þyrfti fyrst og fremst að skoða í nánu samstarfi við landeigendur (þar á meðal mig og mína fjölskyldu...) og við gætum haldið áfram að nýta svæðið á sama hátt og við höfum gert með því að leita í faðm náttúrunnar þegar okkur sýnist. Til að Hornstrandaþjóðgaður geti orðið að veruleika, þarf líka að skoða með hvaða hætti einhverskonar „bætur“ gætu komið í hlut landeigenda til að tryggja að sem flestir gangi sáttir frá samningaborðinu. Ég hef enga töfralausn hvað það snertir enda um flókið mál að ræða því þeir skipta þúsundum sem geta kallað sig landeigendur.

Fólk í ferðaþjónustu má ekki gleyma því að Hornstrandir eru að mestu í einkaeigu og það fer óskaplega mikið í taugarnar á því ágæta fólki, þegar einungis er talað um Hornstrandir með tilliti til ferðaþjónustu. Hornstrandir eru langmest heimsóttar af landeigendum og niðjum þeirra og því þarf að huga að hagsmunum þeirra. Að vísu eru landeigendur ferðamenn þegar þeir gista á fornum heimaslóðum en kannski ekki á sömu forsendum og aðrir gestir.

Íslenska vegakerfið er tugir þúsunda kílómetra, afhverju má ekki einn smá blettur vera vegalaus? Af hverju kemur fólk til Jökulfjarða og Hornstranda? Eru það ekki vegleysurnar og sú sérstaða sem það skapar?

Vegalagning mun því aldrei verða nein lausn.

„Við fengum ekki landið í arf frá forfeðrum okkar, heldur höfum við það að láni frá börnunum okkar“. Indíánahöfðinginn Seattle.

Kveðja,
Rúnar Óli Karlsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi