Grein

Halla Signý Kristjánsdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir.

Halla Signý Kristjánsdóttir | 17.01.2007 | 16:26Þorrablót Bolvíkinga?

Nú fer tími sviðakjamma og hákarls að renna upp og tekur við að hamborgarahryggnum og konfektáti. Þorrablót Bolvíkinga er fastur liður og sjálfsagður líkt og himintunglin. Ástæða þess að ég sest niður og drep niður penna er til að vekja athygli á því óréttlæti sem reglur um rétt til þátttöku á þorrablótinu eru. Eftir því sem ég kemst næst eru þær aðallega fjórar:

1. Konur eiga einungis rétt á þátttöku og mega bjóða með sér, en einungis þær konur sem eru í sambúð og þá mega þær bjóða maka sínum með.

2. Þátttakendur skulu eiga lögheimili í Bolungarvík.

3. Konur skulu klæðast þjóðbúningi og karlar dökkum jakkafötum.

4. Allir skulu koma með mat með sér og hann skal vera í trogum.

Ég hef ekki séð þessar reglur á prenti en mér skilst að ekkjur og ekklar megi líka koma á blótið, líka veit ég að stakar konur hafa fengið að koma ef makar þeirra eiga ekki heimangengt, eru á sjó eða við annað bundnir en einungis konur sem eru í sannarlega í sambúð. Þarna eru karlmenn undanskildir enda ekki í forgang. Þessar reglur hafa verið frá upphafi þorrablótsins, ekki veit ég ástæðuna en hefðinni hefur verið fylgt fram á þennan dag.

Það hlýtur að skjóta skökku við núna þegar liðið er vel á fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldar sé þessi mismun enn við líði og sé réttlæt í ljósi menningarverðmæta. Þá er ég að vísa til fyrstu reglu að einungis fólk í sambúð sé velkomið á Þorrablót Bolvíkinga. Hinar reglurnar er hægt að verja því flestir ef ekki allir eiga að geta útvegað sér það sem til þarf, en fyrsta reglan geta ekki allir uppfyllt.

Þessi sambúðarregla hefur líklega árlega verið rædd og niðurstaðan alltaf endað í þeirri afsökun að reglan snúist um húspláss og til að takmarka þátttökufjölda. Undarlegt að svona reglu skuli beitt. Hvað með að takmarka með skóstærð undir 38, eða undir 45 ára aldri, eða við þá sem hafa búið 15 ár eða lengur í Bolungarvík, eða ef ætti að taka ætti tillit til húspláss að takmarka við kjörþyngd?

Væri bara ekki lýðræðislegt að takmarka þátttöku við regluna „fyrstir koma, fyrstir fá“ eins og alstaðar er gert? Nú hefur sambúð tekið á sig ýmsar myndir frá því að fyrsta þorrablótið var haldið hérna í Víkinni. Líklega hefur framtaksömum konum sem ýttu þorrablótinu úr vör, ekki órað fyrir því frjálsræði sem fjölskyldumynstur nútímans getur tekið á sig. Hvað með samkynhneigða? Eftir því sem ég skil þessar reglur geta lespíur komið á blótið því þar er kona að bjóða maka sínum en ekki hommar!

Ég fanga því hugrekki Guðrúnar Soffíu sem hún sýnir með grein sinni á bb.is. Mig langar til að leggja henni til fylgi með því að bregða upp mynd úr Bolungarvík í dag.

Mynd úr Víkinni

Inga er 54 ára Bolvíkingur og er fædd og uppalin hér í Víkinni. Foreldrar hennar fóru alltaf á þorrablótið því þetta var aðalskemmtun ársins þá líkt og nú. Seinna þegar systkini hennar hófu sambúð fóru þau að fara og allir höfðu jafn gaman af. Inga hefur aldrei verið í sambúð en á tvær dætur sem eru nú orðnar gjafvaxta og önnur í sambúð og ætlar á komandi þorrablót. Inga hefur alltaf tekið virkan þátt í félagslífi er í kvenfélaginu og hefur þar setið í stjórn, driffjöðrin í slysavarnarfélaginu og er virkur þáttakandi í öllu því sem gerir mannlífið í Víkinni fallegra og betra.

Hún hefur svo sem ekki gert sér grillu út af þessu þorrablóti en samt! Hún á nú oftast vinkonu í nefndinni sem bíður henni alltaf á lokaæfingu svo hún getur notið skemmtiatriðanna sem alltaf eru settar fram af miklum metnaði og mikið lagt í. Inga ætlar að bjóða í mat vinum og kunningjum sem hún veit að fara ekki á blótið enda ekki seturétt. Gestalisti Ingu lýtur svona út.

1. Guðrún, hún missti mann sinn fyrir tveimur árum eftir 30 ára hjónaband, þau fóru alltaf á þorrablótið og var eiginlega þeirra eina skemmtun svo hún getur ekki fengið af sér að mæta og vera “stök” alltof margar minningar.

2. Jóna, hún skildi í maí á síðasta ári, var í nefndinni síðast og búin að vera á 10 þorrablótum. Hún er frekar fúl yfir þessu, en má ekki fara. Fyrrverandi maðurinn hennar náði sér fljótt í nýja konu og mætir því galvaskur á blótið í fullum rétti.

3. Gulli, er bróðir Ingu, hann er þroskaheftur og býr í Hvíta húsinu. Hann hefur mjög gaman af því að fara á mannamót og mætir alltaf á pöbbinn um hverja helgi til að spjalla við fólkið. Hvers manns hugljúfi.

4. Stefanía yngri dóttir Ingu, hún er einstæð móðir og vinnur í Bakkavík.

5. Karl er 30 ára, er íþróttakennarinn á staðnum, samkynhneigður en ekki í sambúð, en á kærasta í Kópavogi.

6. Róbert, fráskilinn myndalegur karl á sextugsaldri, Inga er nú að vonast til að hann og Guðrún fari nú að taka betur eftir hvort öðru sem kannski leiðir til þess að þau ná þátttökurétti og þeirri stöðu í samfélagi Bolvíkinga að þau verði nógu rétthá til að vera velkomin á Þorrablót Bolvíkinga.

Ég geri mér grein fyrir því að þessi regla byggir á gömlum grunni sem endurspeglaði það samfélag sem var þá þegar henni var beitt fyrst. Það ætti þó að vera eðlileg umræða að taka þessa reglu til endurskoðunar nú þegar samsetning samfélagsins hefur tekið á sig þá mynd sem hún er í dag og hefur verið síðustu áratugi. En ég geri mér líka grein fyrir að allar breytingar eru erfiðar ef því sem á að breyta hefur tilfinningalegt gildi. Ég skora því á Bolvíkinga að taka þessari umræðu með opnum huga og tökum tillit til skoðana. Við getum með stolti borðið virðingu fyrir fornum bolvískum valkyrjum, þrátt fyrir að við endurskoðum þáttökureglum þorrablótsins. Við skulum ekki blóta þorrablóti Bolvíkinga, þetta hefur menningarlegt gildi við skulum bara leyfa ÖLLUM Bolvíkingum að njóta þess.

Með kveðju, Halla Signý Kristjánsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi