Grein

Þóra Hansdóttir.
Þóra Hansdóttir.

Þóra Hansdóttir | 17.01.2007 | 08:15Þorrablótið í Bolungavík – eru hefðir mannréttindabrot?

Það hefur bæði sína kosti og galla að búa í litlu samfélagi, oftast finnst mér nú kostirnir vega þyngra, þegar ég hugsa um búsetu í mínu litla bæjarfélagi og lít þá helst til þess að auðveldara sé að nálgast hinn félagslega þátt í samfélaginu, fá lánað hjá nágrannanum og rétta hjálparhönd þegar þess er þörf. En svo kemur þorrablótið svona rétt á bak jólum þegar samfélagshyggjan var alveg að kæfa okkar kristna hjarta og mammon fékk að nota krítarkortið okkar, allt í þágu gleði og góðmennsku, því ,,engin má klæða köttinn”

Á þorrablótið bjóðum við bolvískar eiginkonur bændum okkar og það er þeirra bóndadagsgjöf. Við gerum vel við þá í mat og setjum þeim engar skorður í drykk í þetta eina sinn. Við klæðumst eins og formæður okkar íslenskum upphlut eða peysufötum vel flestar erum við líka búnar að sjá til þess að karlarnir eigi nú íslenska hátíðabúningin (það er þá kannski afsakanlegt að taka aðeins feil).

Erum við þá ekki góðar konur? Það finnst okkur að minnsta kosti. Við erum að halda í hefðir sem formæður okkar sköpuðu á þeim tíma, sem hjón voru hjón, uns dauðinn aðskildi þau og einu sparifötin voru peysuföt og/eða upphlutur. Nú eru hinsvegar hjónaskilnaðir og sambúðslit orðin mun algengari endir hjónabanda og engum þykir það nema skiljanlegt. Þannig er það nú bara.

Eigum við þá að horfa til þess og segja auðvitað mega konur, sem unnið hafa að þorrablótinu og skipað þar bekki árum saman, koma áfram á þorrablót ef þær óska þess, annað er vanþakklæti. Hvað erum við að segja með því? Jú við konurnar bjóðum og tökum á móti þorra eins og húsfreyjum ber að gera, en skilur góð húsfreyja útundan? Hvað með hinn fráskilda karl, sem er ekki komin aftur í sambúð, á hann að gjalda varúðar sinnar, sé hún til staðar? Hvað svo ef í bæinn flyttu nú samkynhneigðir karlar í skráðri sambúð, ömmur okkar óraði nú ekki einu sinni fyrir því að það gæti skeð. Ég ætla ekki að fordæma hefðir okkar, eða mælast til að við breytum þeim að minnsta kosti ekki í grænum hvelli. Ég held aðeins að við þurfum að staldra við og skoða samfélagið okkar með opnari huga en við höfum gert. Það sem ég óttast mest er að þegar fækkar í samfélögum hættir fólki svo til að níða skóna hvert af öðru og sjá allstaðar skolla í horni. Við verðum því að skoða allar athafnir samfélagsins með það fyrir augum að mismunun verði sem minnst.

Fyrir nokkrum árum var annar stórviðburður ekki minni í félagslífinu hér í Bolungavík. Það var Lions árshátíðin. Til að komast á hana þurftu þeir sem ekki voru í Lion að koma sér vel við einhvern í félaginu til þess að taka þátt og dugði það ekki alltaf til, slík var aðsóknin. Undir það síðasta voru Lions menn beinlínis farnir að biðja fólk að koma á árshátíðina og loks gáfust þeir upp. Lions menn héldu líka kúttmagakvöld, sem var misjafnlega vel séð af okkur afbrýðisömun eiginkonum, sem fengum ekki aðgöngu. Ekki fórum við nú samt fram á að vera með, en fórum í stað þess að halda konukvöld, sem varð enda vinsælla og lífseigara en kúttmagakvöldið, sem karlarnir eru nú farnir að halda með kollegum sínum fyrir innan hlíð.

Kannski ættum við að reyna að halda eina alsherjarskemmtun fyrir alla Bolvíkinga 18 ára og eldri og skapa þar einhverja eftirminnilega hefð. Það mætti hugsa sér að þar yrði borðaður fiskur, lystilega framreiddur, og allir mættu í hvítu. Eða er það kannski ekki þarna sem skórinn kreppir?

Kæru Bolvíkingar, veltum þessu fyrir okkur og einnig því að ef fer sem horfir og við verðum orðin Ísfirðingar eftir svona 20 ár í mesta lagi. Hvað verður þá um þorrablótið?

Þóra Hansdóttir, húsmóðir og eiginkona í Bolungavík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi